• fös. 31. okt. 2025
  • Dómaramál

Dómaraval í FSu


KSÍ og FSu, Fjölbrautaskóli Suðurlands, hafa tekið höndum saman nú á haustmánuðum og staðið fyrir áfanga í skólanum þar sem áhersla er lögð á kynningu á knattspyrnudómgæslu.

Dómaraval er í fyrsta skipti í boði fyrir nemendur en yfirumsjón með áfanganum hafa þeir Gunnar Jarl Jónsson, dómaraþjálfari hjá KSÍ og fyrrverandi FIFA dómari, og Gunnar Borgþórsson, yfirþjálfari hjá Selfoss og kennari við FSU.

Nemendur sem ljúka valáfanganum fá einingu en 12 nemendur skráðu sig í áfangann. Öðlast nemendur réttindi sem unglingadómarar og héraðsdómarar að áfanga loknum.

Meðal þess efnis sem nemendur þurfa að fara yfir eru ákvarðanatökur, hlutverk dómara og aðstoðardómara, verklegar æfingar, líkamstjáning ásamt öðrum mikilvægum þáttum sem dómarar þurfa að búa yfir.

Á dögunum fór fram verkleg æfing í Lindex höllinni á Selfossi og þar má sjá Gunnar Jarl Jónsson, dómaraþjálfara, og Jóhann Inga Jónsson, FIFA dómara, gefa nemendum góð ráð og sýna þeim hvernig unnið er með dómara á verklegum æfingum.

Mikil ánægja hefur verið meðal nemenda með þessa nýjung í FSu og standa vonir til að áframhald verði á þessu samstarfi ásamt því að skoðað verður að útvíkka dómaraval í fleiri framhaldsskóla.