Lögfesting á samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks
Samningur Sameinuðu þjóðanna (SÞ) um réttindi fatlaðs fólks var samþykktur á allsherjarþingi SÞ í desember 2006. Ísland undirritaði samninginn í mars 2007 og var hann fullgiltur í september 2016.
Samningurinn var síðan lögfestur 12. nóvember síðastliðinn.
Lögfestingin markar mikilvægt skref í átt að samfélagi þar sem manngildi, jafnrétti og þátttaka allra er tryggð – bæði innan íþróttahreyfingarinnar og utan.
KSÍ vill leggja sitt af mörkum til þess að íþróttir séu aðgengilegar öllum. Knattspyrna getur verið sameiningarafl og vettvangur fyrir þátttöku án aðgreiningar og hindrana. Með lögfestingu réttindanna er staðfest sú grundvallarsýn að allir einstaklingar, óháð fötlun, eigi rétt á að stunda íþróttir við viðeigandi aðstæður, njóta virðingar og aðgengis og fá tækifæri til að blómstra.
KSÍ ítrekar skuldbindingu sína um að vinna markvisst að því að bæta aðgengi, fræðslu og stuðning innan knattspyrnuhreyfingarinnar. Halda þarf áfram að þróa umhverfi þar sem allir geta tekið þátt á sínum forsendum og fundið sig innan íþróttarinnar. KSÍ hvetur aðildarfélög til að halda áfram sínu góða starfi og leggja sitt af mörkum í þessu mikilvæga verkefni – að standa með réttindum fatlaðs fólks, efla aðgengi og tryggja að innra starf þeirra endurspegli þá virðingu og mannréttindi sem lögfestingin boðar.
Knattspyrna er fyrir alla – og það er sameiginleg ábyrgð knattspyrnuhreyfingarinnar að svo verði.









