
Það er til hjálp við spilavanda
KSÍ og SÁÁ standa saman að verkefni sem ætlað er að vekja athygli á spilavanda og hvetja einstaklinga sem þurfa á því að halda að leita sér viðeigandi aðstoðar.
Tilgangur SÁÁ er að vinna að því að draga úr skaðlegum áhrifum fíknisjúkdóma á einstaklinga, fjölskyldur og samfélagið í heild. Samtökin stuðla að bættu heilbrigði, lífsgæðum og félagslegum úrræðum með því að veita þjónustu, stuðning og fræðslu. Grunnur herferðarinnar er að vekja athygli á starfsemi SÁÁ og þeirri þjónustu sem samtökin bjóða upp á fyrir einstaklinga sem glíma við spilavanda.
KSÍ og SÁÁ leggja áherslu á að allir geti leitað sér hjálpar og ráðgjafar, hvort sem um er að ræða leikmenn, þjálfara, dómara, aðstandendur eða almennt áhugafólk um knattspyrnu.
Á heimasíðu SÁÁ má finna upplýsingar um meðferð við spilafíkn.
Myndband um verkefnið var frumsýnt í dag, þriðjudag, á miðlum KSÍ.









