• fim. 08. jan. 2026
  • Landslið
  • A karla

Minning – Åge Hareide

Góður félagi okkar allra, Norðmaðurinn Åge Hareide, fyrrum þjálfari A landsliðs karla, lést í desember síðastliðnum eftir snarpa baráttu við veikindi. Útför hans fer fram frá dómkirkjunni í hans heimabæ Molde í Noregi í dag, fimmtudag, að viðstöddu fjölmenni.

Líf Åge Hareide, sem fæddist árið 1953, var alla tíð samofið knattspyrnuíþróttinni, og hann átti langan og árangursríkan feril sem leikmaður í Noregi og á Englandi, og sem þjálfari nokkurra af stærstu félagsliðum Norðurlanda, auk þess að þjálfa landslið Noregs og Danmerkur um árabil með góðum árangri. Hann tók við stjórn karlalandsliðs Íslands í apríl 2023 og stýrði því í alls 20 leikjum við góðan orðstír.

Åge Hareide er stórt nafn í knattspyrnuheiminum, mun stærra en við Íslendingar kannski áttum okkur fyllilega á, auðvitað frábær þjálfari með gríðarlega þekkingu á fótbolta, en líka litríkur og áhugaverður maður sem hafði frá svo ótalmörgu að segja.

Við hjá KSÍ minnumst fallins félaga með hlýhug og þakklæti fyrir hans góðu störf fyrir íslenska knattspyrnu og vottum fjölskyldu hans, aðstandendum og vinum samúð.

Blessuð sé minning Åge Hareide.

Kveðja frá stjórn og starfsfólki KSÍ