• fös. 23. maí 2025
  • Mannvirki

Umsókn í hamfarasjóð UEFA samþykkt

Í marsmánuði heimsóttu fulltrúar KSÍ og UEFA Grindavík og skoðuðu keppnis- og æfingasvæði Grindvíkinga og ummerki eftir jarðhræringarnar sem þar hafa átt sér stað. Tilgangur heimsóknarinnar var að gefa fulltrúa UEFA kost á að kynna sér aðstæður þar sem KSÍ myndi, fyrir hönd knattspyrnudeildar Grindavíkur, sækja um styrk í sérstakan hamfarasjóð UEFA (UEFA Emergency Grant).

Í kjölfarið sótti KSÍ um fyrrgreindan styrk. Nefnd á vegum UEFA (Bureau of the UEFA Social and Environmental Sustainability Committee) fjallaði um umsóknina á fundi sínum 19. maí síðastliðinn og samþykkti styrk að upphæð 50.000 evrur, í samræmi við reglugerð sjóðsins og skilmála um úthlutun úr honum. Samkvæmt upplýsingum frá UEFA voru óvenju margar umsóknir um styrk úr hamfarasjóðnum að þessu sinni og því afar ánægjulegt að umsókn KSÍ hafi skilað árangri.

Haukur G. Einarsson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur:

"Knattspyrnudeild Grindavíkur vill koma á framfæri kærum þökkum til KSÍ og UEFA. Deildin hefur staðið frammi fyrir miklum áskorunum. Náttúruöflin gjöreyðilögðu æfingasvæði og innanhússaðstöðu deildarinnar, en með mikilli eljusemi og dugnaði sjálfboðaliða, þá hefur liðið snúið heim. Framundan er uppbyggingartími, og ófyrirséður kostnaður til næstu ára, en með stuðningi KSÍ og UEFA getur deildin spyrnt við fótum. Formaður KSÍ og starfsfólk KSÍ hefur verið deildinni gríðarleg hjálp síðustu mánuði. Fyrir það og fyrir stuðning UEFA verður seint þakkað nógsamlega."