Hundruðir viðtala íslenska liðsins á EM 2025
Eins og knattspyrnuáhugafólki er kunnugt um þá leikur A landslið kvenna um þessar mundir í úrslitakeppni EM 2025 í Sviss. Stór og mikilvægur hluti af stórmótum í fótbolta eru verkefni tengd fjölmiðlum. Líkt og á öllum stórmótum eru íslenskir fjölmiðlar fjölmennir og sinna umfjöllun afar vel.
Athyglin á mótinu og þátttökuliðunum er gríðarleg og mikilvægt að skipuleggja og stýra aðgengi fjölmiðla, íslenskra jafnt sem annarra, að leikmönnum og þjálfurum, m.a. til að halda jafnvægi milli aðgengis fjölmiðla annars vegar og íþróttalegs undirbúnings liðsins hins vegar.
Í þessu samhengi er áhugavert að skoða fjölda viðtala sem fulltrúar íslenska liðsins hafa farið í nú þegar og hverju má eiga von á í framhaldinu. Hér er eingöngu átt við viðtöl, og ekki taldir aðrir fjölmiðlaviðburðir, blaðamannafundir og annað.
Nú þegar hafa leikmenn og þjálfarar íslenska liðsins farið í 190 viðtöl - frá því liðið kom saman í Serbíu til undirbúnings fyrir mótið, til og með fjölmiðlaviðburði dagsins í dag (föstudagsins 4. júlí). Næstu daga eru skipulögð viðtöl og sérstakir viðtalstímar og búast má við að eftir leik Íslands við Sviss í mótinu verði leikmenn og þjálfarar búnir að fara í um 250-260 viðtöl samanlagt frá því liðið kom saman í Serbíu – og þá er þriðji leikurinn í riðlakeppni EM og aðdragandi hans eftir, svo ekki sé minnst á 8-liða úrslitin, enda er það yfirlýst markmið íslenska liðsins á mótinu að komast upp úr riðlinum og leiða má að því líkur að viðtölum í kringum hvern leik fjölgi eftir því sem lið komast lengra í mótinu.