• fös. 12. sep. 2025
  • Mótamál
  • Lengjudeildin
  • 2. deild karla
  • 3. deild karla
  • 2. deild kvenna

Síðustu leikir nokkurra deilda um helgina

Það styttist í að fótboltasumarið klárist, en síðustu leikir nokkurra deilda fara fram um helgina.

2. deild kvenna klárast um helgina. Nú þegar er ljóst að Selfoss hampar titlinum. ÍH er í öðru sæti, tveimur stigum á undan Völsungi fyrir lokaumferðina. ÍH nægir að öllum líkindum jafntefli til að tryggja sér annað sæti í ljósi markatölu sinnar, en takist Völsungi að vinna Selfoss og ÍH tapar fyrir Fjölni þá fer Völsungur í annað sætið.

Síðasta umferð Lengjudeildar karla fer fram á laugardag og er gríðarlega mikil spenna á bæði toppi og botni deildarinnar. Þrjú lið, Þór, Þróttur R. og Njarðvík eiga möguleika á að enda í fyrsta sæti deildarinnar og fara beint upp í Bestu deildina. Þróttur R. og Þór mætast einmitt á AVIS vellinum á meðan Njarðvík mætir Grindavík á JBÓ vellinum. Það er þegar ljóst að Fjölnir er fallið í 2. deild. Selfoss, Leiknir R., Fylkir og Grindavík geta öll farið með Fjölni niður, en Selfoss situr í 11. sæti fyrir lokaumferðina.

2. deild karla klárast á laugardag þar sem Þróttur V., Ægir og Grótta berjast um tvö sæti í Lengjudeildinni. Þróttur V. er í efsta sæti með 42 stig, en Ægir og Grótta eru jöfn að stigum með 41 stig. Ægir er þó í 2. sæti með betri markatölu en Grótta. Grótta og Þróttur V. mætast innbyrðis í lokaumferðinni. Á botninum er Höttur/Huginn fallið, en Víðir, Kári og og KFG geta fylgt þeim niður í 3. deild. 

Magni er komið upp í 2. deild karla, þó Hvíti Riddarinn geti komist yfir það og í efsta sætið. Augnablik er svo í þriðja sæti, þremur stigum á eftir Hvíta Riddaranum en með mun verri markatölu. Svo það þarf margt að gerast svo Hvíti Riddarinn fari ekki upp með Magna. ÍH er hins vegar fallið í 4. deild á meðan KFK eða KF fylgja þeim niður. KFK er með 20 stig í 11. sæti á meðan KF er með 20 stig í 10. sæti.