• sun. 28. sep. 2025
  • Landslið
  • A kvenna

Ólafur Helgi ráðinn aðstoðarþjálfari A landsliðs kvenna

KSÍ hefur gengið frá ráðningu Ólafs Helga Kristjánssonar í stöðu aðstoðarþjálfara A landsliðs kvenna og verður hans fyrsta verkefni með liðinu komandi umspilsleikir gegn Norður-Írlandi 24. október ytra og 28. október á Laugardalsvelli.

Ólafur, sem er reynslumikill þjálfari og knattspyrnuáhugafólki að góðu kunnur, er núverandi aðalþjálfari Þróttar R. í Bestu deild kvenna og mun hann hætta með lið Þróttar að loknu yfirstandandi keppnistímabili.

Auk stöðu aðstoðarþjálfara A landsliðs kvenna mun Ólafur leiða þróun og stefnumótun hjá yngri landsliðum kvenna og þess utan sinna verkefnum tengdum fræðslumálum hjá KSÍ, meðal annars í tengslum við KSÍ Pro námið.

Ólafur var leikmaður um langt árabil með FH og KR auk þess að leika með danska liðinu AGF í Árósum. Þá lék hann alls 14 A landsleiki fyrir Íslands hönd, ásamt því að leika með U21 og U19 landsliðunum. Á þjálfaraferli sínum hefur Ólafur stýrt karlaliðum Fram, Breiðabliks og FH, og nú síðast kvennaliði Þróttar R., og einnig þjálfað í Danmörku - hjá AGF sem aðstoðarþjálfari og aðalþjálfari hjá Nordsjælland, Randers og Esbjerg.

KSÍ býður Ólaf velkominn til starfa og þakkar Þrótti fyrir góð samskipti í tengslum við ráðninguna.

Leit að nýjum markmannsþjálfara A landsliðs kvenna stendur yfir og verður tilkynnt á miðlum KSÍ um leið og þau mál skýrast.

A landslið kvenna