Leikið á Þróttarvelli á miðvikudag
Ákveðið hefur verið að leikur A landsliðs kvenna við Norður-Írland, sem fara átti fram á Laugardalsvelli í dag, þriðjudag, verði leikinn á Þróttarvelli í Laugardal á morgun, miðvikudag kl. 17:00. Þessi ákvörðun er tekin af Knattspyrnusambandi Evrópu (UEFA), í samráði við KSÍ og Norður-írska knattspyrnusambandið (IFA).
Allir miðar sem voru seldir á leikinn á Laugardalsvelli verða endurgreiddir í vikunni. Miðar á leikinn á miðvikudag verða seldir í gegnum miðasöluvef KSÍ og við innganginn á Þróttarvöll, en eins og gefur að skilja er um að ræða takmarkaðan fjölda miða.
KSÍ hvetur fólk til að sýna aðgát og varkárni í umferðinni vegna veðurfars og aðstæðna og skilaboð yfirvalda og viðbragðsaðila um að fara ekki út í umferðina á vanbúnum ökutækjum eiga vel við.
Leikurinn er í beinni sjónvarpssendingu á RÚV.
Um er að ræða seinni viðureign liðanna í umspili um sæti í Þjóðadeild A, en liðin mættust síðastliðinn föstudag ytra og vann þar íslenska liðið tveggja marka sigur.







