Starfsmannahald KSÍ
Reglulega kviknar umræða innan knattspyrnuhreyfingarinnar um umfang starfsemi KSÍ – og þá helst um verkefni skrifstofu og fjölda starfsfólks. Vegna þessa vill KSÍ vekja athygli á því að í mannauðsrannsókn sem UEFA framkvæmdi árið 2024 (UEFA Human Resources Benchmarking Report) kom m.a. fram að KSÍ væri í 53. sæti af öllum 55 knattspyrnusamböndum innan UEFA þegar talinn væri fjöldi starfsfólks – sem sagt, knattspyrnusambönd aðeins tveggja aðildarlanda UEFA eru með færri starfsmenn en KSÍ.
Á skrifstofu sambandsins og Laugardalsvelli eru nú (í desember 2025) alls 37,8 stöðugildi.
- Á skrifstofunni, að meðtöldum formanni KSÍ og landsliðsþjálfurum, eru 31,8 föst stöðugildi (þar af landsliðsþjálfarar 9,6 stöðugildi).
- Þessu til viðbótar eru 4 stöðugildi sem eru fjármögnuð með styrkjum frá UEFA og FIFA - eitt tímabundið stöðugildi í innleiðingu á nýju mótakerfi (styrkur á meðan á innleiðingu stendur) og 3 stöðugildi í sérverkefni á knattspyrnusviði (styrkur á meðan verkefni er í gangi). Styrkir í þessum tilfellum eru eyrnamerktir einmitt þessum tilteknu verkefnum/stöðugildum og fengjust ekki ef þessi verkefni væri ekki í gangi.
- Þá eru 2 stöðugildi á Laugardalsvelli sem sjá um viðhald vallarins sem og mannvirkisins í samstarfi við Reykjavíkurborg á grundvelli þjónustu- og rekstrarsamnings milli aðila.
Þetta gera alls 37,8 stöðugildi og eru 6 þeirra ekki fjármögnuð af KSÍ.
Til fróðleiks og samanburðar má nefna að starfsmenn færeyska knattspyrnusambandsins nú (í desember 2025) eru 35 alls, að meðtöldum landsliðsþjálfurum, og þar af 2 stöðugildi sem bera ábyrgð á umsjón og viðhaldi skrifstofuaðstöðu. Til viðbótar þessum 35 stöðugildum eru 4 starfsmenn sveitarfélagsins í Þórshöfn sem bera ábyrgð á viðhaldi þjóðarleikvangsins í Færeyjum og sinna honum samhliða 4 öðrum leikvöngum sem sveitarfélagið rekur.






