• fös. 23. júl. 2021
  • Mótamál
  • Evrópuleikir

Breiðablik gerði jafntefli í Austurríki á meðan Valur og FH töpuðu hér heima

Mynd - fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Fyrri leikir annarrar umferðar forkeppni Sambandsdeildarinnar fóru fram á fimmtudag.

Valur og FH léku hér heima á meðan Breiðablik fór til Austurríkis. Breiðablik gerði 1-1 jafntefli gegn Austria Wien, en Alexander Helgi Sigurðarson skoraði mark Breiðabliks í upphafi síðari hálfleiks. FH og Valur töpuðu bæði sínum leikjum, FH 0-2 gegn Rosenborg og Valur 0-3 gegn Bodo/Glimt.

Síðari leikir viðureignanna fara fram eftir viku, fimmtudaginn 29. júlí. Leikur Bodo/Glimt og Vals hefst kl. 16:00, Rosenborg og FH mætast kl. 17:00 og Breiðablik tekur á móti Austria Wien kl. 19:00 á Kópavogsvelli.

Þegar hefur verið dregið í næstu umferð forkeppninnar og því ljóst hvaða liðum íslenskum liðin mæta takist þeim að komast áfram. Takist Breiðablik að fara áfram úr sínu einvígi mætir liðið annað hvort Aberdeen frá Skotlandi eða Häcken frá Svíþjóð, en Aberdeen vann fyrri leik liðanna í Skotlandi 5-1. FH gæti mætt Domzale frá Slóveníu eða Honka Espoo frá Finnlandi, en fyrri leikur liðanna fór 1-1 í Slóveníu. Valur mætir Prishtina frá Kosóvó eða Connah´s Quay Nomads frá Wales takist þeim að slá út Alfons Sampsted og félaga í Bodo/Glimt, en fyrri leikur þeirra fór 4-1 fyrir Prishtina en leikið var í Kosóvó.