• fim. 05. ágú. 2021
  • Agamál

Leikur Selfoss/Hamars/Ægis og FH í 3. flokki karla A liða skal endurtekinn

Áfrýjunardómstóll KSÍ hefur kveðið upp dóm í máli nr. 2/2021 FH gegn Selfossi. Hefur áfrýjunardómstóll KSÍ dæmt leik Selfoss/Hamars/Ægis og FH í Íslandsmóti 3. flokks karla A liða sem fram fór 2. júlí 2021 ógildan og skal hann endurtekinn

Úr dómsniðurstöðu í máli nr. 2/2021:

„Ljóst liggur fyrir í gögnum málsins að kærður leikur á milli Selfoss/Hamars/Ægis og FH í 3. flokki karla A liða, þann 2. júlí sl., fór fram á velli sem ekki uppfyllir þau skilyrði sem sett eru í reglugerð KSÍ um knattspyrnuleikvanga. Í málinu er óumdeilt á milli aðila að sá völlur sem leikið var á hafi verið of lítill eða u.þ.b. 54,30 metrar á breidd. Í samræmi við grein 18.1. í reglugerð KSÍ um knattspyrnumót skulu leikir í 3. aldursflokki fara fram á völlum sem uppfylla kröfur sem settar eru fram í reglugerð KSÍ um knattspyrnuleikvanga fyrir vallarflokk D. Samkvæmt því skuli vellir í vallarflokki D a.m.k. vera 64 metrar á breidd en eldri vellir sem að lágmarki séu 60 metrar á breidd geti sömuleiðis fengið samþykki í flokki D. Með vísan til þessa uppfyllir umræddur leikvöllur ekki ófrávíkjanleg lágmarksskilyrði reglugerðar KSÍ um knattspyrnumót og reglugerðar KSÍ um knattspyrnuleikvanga fyrir vallarflokk D og völlurinn því ólöglegur í keppni 3. aldursflokks í Íslandsmóti. Skiptir þar engu máli hvort samið hafi verið um það á milli aðila að leika skyldi á vellinum þrátt fyrir smæð hans eða hvort mótmæli hafi verið borin fram við dómara fyrir leikinn um keppnisvöll eður ei í samræmi við grein 34.1. í reglugerð KSÍ um knattspyrnumót.

Með vísan til framangreinds verður leikur Selfoss/Hamars/Ægis og FH 3. flokki karla A liða á Hamarsvelli í Hveragerði 2. júlí 2021 dæmdur ógildur og tekin til greina varakrafa knattspyrnudeildar FH um að leikur félagsins við Selfoss/Hamar/Ægi í 3. flokki karla A liða verði endurtekin og fari fram á heimavelli Selfoss sem uppfylli a.m.k. kröfur í vallarflokki D í samræmi við reglugerð KSÍ um knattspyrnuleikvanga.“

Dómur í máli nr. 2/2021