• fös. 19. nóv. 2021
  • Mótamál
  • Evrópuleikir

Svekkjandi tap hjá Breiðablik í Meistaradeild kvenna

Breiðablik tapaði 0-2 gegn WFC Kharkiv í Meistaradeild kvenna, en leikið var á Kópavogsvelli.

Leikurinn var nokkuð jafn og áttu bæði lið sín færi til að skora mörk. Breiðablik byrjaði leikinn mjög vel, kom sér oft á tíðum í góðar stöður, en það vantaði herslumuninn til að koma boltanum í netið. Kharkiv komst meira inn í leikinn þegar leið á fyrri hálfleik og þær skoruðu fyrsta mark leiksins undir lok hans. Olha Ovdiychuk átti þá frábæra sendingu fyrir markið og Yulia Shevchuk setti boltann í netið af öryggi. Gestirnir því yfir þegar flautað var til hálfleiks.

Blikar hófu síðari hálfleikinn af krafti, en eins og í þeim fyrri tókst þeim ekki að koma boltanum í netið. Jafnræði var með liðunum mest allan hálfleikinn, en það voru gestirnir sem skoruðu annað mark leiksins þegar Ovdiychuk skoraði með glæsilegu skoti fyrir utan teig. Ekki voru fleiri mörk skoruð og svekkjandi tap staðreynd hjá Breiðablik. Þessi úrslit þýða það að liðið á ekki lengur möguleika á því að komast áfram. Liðið á tvo leiki eftir, það mætir Real Madrid á Kópavogsvelli 8. desember og endar svo keppnina að mæta PSG í París 16. desember.