• fim. 25. nóv. 2021
  • Mótamál

Sérstök réttindi kvenleikmanna vegna fæðingarorlofs

Á fundi stjórnar KSÍ þann 9. september sl. samþykkti stjórn breytingar á reglugerð KSÍ um félagaskipti, samninga og stöðu leikmanna og félaga, þar sem m.a. ákvæði um sérstök réttindi kvenleikmanna vegna fæðingarorlofs voru innleidd í 19. gr. reglugerðarinnar. Um ræðir ákvæði sem eiga sér stoð í reglugerð FIFA um stöðu og félagaskipti leikmanna (FIFA regulations on the status and transfer of players) og komu inn í þá reglugerð í upphafi árs 2021. Ákvæðin eru skyldubundin fyrir aðildarsambönd FIFA, þ.á m. KSÍ, og verða því að vera í reglugerðum sambandsins.

Auk þeirra reglna sem þegar hafa verið innleiddar í reglugerð KSÍ um félagaskipti, samninga og stöðu leikmanna og félaga er varða fæðingarorlof kvenleikmanna er að finna í reglugerð FIFA ákvæði í a. og b. lið 6. gr. reglugerðarinnar þar sem kveðið er á um undantekningarheimildir í tengslum við félagaskipti tengdum fæðingarorlofi kvenleikmanna. Þessi ákvæði FIFA reglugerðarinnar eru jafnframt skyldubundin fyrir aðildarsambönd FIFA.

Annars vegar er um að ræða þá undantekningu að heimilt sé, utan félagaskiptatímabila, að samþykkja félagaskipti kvenleikmanns sem ætlað er að leysa af hólmi samningsbundinn leikmann í fæðingarorlofi. Hins vegar er um að ræða þá undantekningu að heimilt sé að samþykkja félagaskipti leikmanns sem er að ljúka fæðingarorlofi, að því gefnu að viðkomandi leikmaður sé samningslaus, þ.e. sé ekki samningsbundinn öðru félagi.

Hefur stjórn KSÍ nú samþykkt að þessar reglur verði jafnframt innleiddar í reglugerð KSÍ um félagaskipti, samninga og stöðu leikmanna og félaga undir 10. gr. um félagaskipti, n.t.t í undirgreinum 10.4 og 10.5.

Samninga- og félagaskiptanefnd KSÍ hefur þegar í eitt skipti heimilað félagaskipti utan félagaskiptaglugga á grundvelli a. liðar 6. gr. framangreindrar FIFA reglugerðar um stöðu og félagaskipti leikmanna.

Sjá nánar í dreifibréfi nr. 11/2021