• fim. 30. des. 2021
  • Mótamál

Mót meistaraflokka 2022 - Drög að niðurröðun

KSÍ hefur gefið út drög að niðurröðun leikja í eftirfarandi mótum:  Efstu deild karla, Efstu deild kvenna, Lengjudeild karla, Lengjudeild kvenna og 2. deild karla.  Leikdagar í Mjólkurbikar karla og kvenna hafa einnig verið ákveðnir. 

Drög að niðurröðun mótanna má sjá á vef KSÍ.  Smellið hér til að skoða mót meistaraflokka 2022

Efsta deild kvenna og Mjólkurbikar kvenna

Keppni í Efstu deild kvenna hefst þriðjudaginn 26. apríl og lýkur laugardaginn 1. október. Gert er rúmlega 6 vikna hlé um mitt mót vegna þátttöku A-landsliðs kvenna á EM í Englandi. Úrslitaleikur Mjólkurbikars kvenna verður laugardaginn 27. ágúst.

Efsta deild karla og Mjólkurbikar karla

Niðurröðun leikja tekur mið af yfirlýsingu meirihluta félaga í tveimur efstu deildum karla um að lögð verði fram tillaga að breyttu fyrirkomulagi í Efstu deild karla á ársþingi KSÍ í lok febrúar, sem taki strax gildi keppnistimabilið 2022. Einnig hafa verið gerðar tilfærslur á leikjum í 10. og 12. umferð vegna þátttöku íslenskra liða í Evrópukeppnum félagsliða.

Að ósk stjórnar ÍTF hefur verið ákveðið að seinka upphafi Efstu deildar karla og aðalkeppni Mjólkurbikars karla frá því sem upphaflega hafði verið gert ráð fyrir. Keppni Efstu deildar karla hefst því 18. apríl (annan í páskum) og aðalkeppni Mjólkurbikarsins (32-liða úrslit) hefst í lok maí. Úrslitaleikur Mjólkurbikars karla verður laugardaginn 1. október, sem er sömu helgi og gert er ráð fyrir að úrslitakeppni Efstu deildar karla hefjist. Leikir viðkomandi liða í 1. umferð úrslitakeppninnar frestast því til miðvikudagsins 5. október. Keppni Efstu deildar karla lýkur svo laugardaginn 29. október.

Önnur mót meistaraflokka

Keppni í Lengjudeildum karla og kvenna hefst líkt og áður í byrjun maí og lýkur upp úr miðjum september. Sama gildir um 2. og 3. deild karla.  Niðurröðun leikja í 3. deild karla er í vinnslu og verður birt fljótlega á nýju ári.  Vinna við niðurröðun leikja í 2. deild kvenna og 4. deild karla hefst þegar þátttaka liggur fyrir. Þátttökugögn þurfa að berast fyrir 10. janúar, sjá nánar hér.