• fös. 05. ágú. 2022
  • Agamál

Þjálfari Gróttu úrskurðaður í leikbann og Grótta sektuð

Þjálfari meistaraflokks karla hjá Gróttu hefur verið úrskurðaður í þriggja leikja bann í Íslandsmóti. Er þetta niðurstaðan eftir aukafund aga- og úrskurðarnefndar þann 4. ágúst.

Á fundinum voru tekin fyrir atvik úr skýrslu eftirlitsmanns og dómara úr leik HK og Gróttu í Lengjudeild karla sem fram fór þann 27. júlí. í úrskurðinum segir að framkoma þjálfara meistaraflokks karla hjá Gróttu hafi verið "alvarleg og vítaverð og falið í sér ógnandi tilburði gagnvart dómara leiksins".

Ásamt leikbanni þjálfara Gróttu var ákveðið að sekta Gróttu um 100.000 kr. með vísan til ákvæða 12.9.f) reglugerðar KSÍ um aga- og úrskurðarmál og 40. greinar laga KSÍ.