• fös. 26. ágú. 2022
  • Mótamál

50 ár frá upphafi Íslandsmóts kvenna

Í dag eru liðin 50 ár frá því að fyrsti leikur á Íslandsmóti í meistaraflokki kvenna var spilaður. 

Árið 1972 voru átta lið skráð til leiks sem var skipt í tvo riðla. Spiluð var einföld umferð í hvorum riðli og mættust sigurvegarar í hvorum riðli í úrslitaleik um fyrsta Íslandsmeistaratitil í meistaraflokki kvenna.

Í A-riðli voru FH, Fram, Breiðablik og Þróttur þar sem Fram og Breiðablik mættust í opnunarleiknum. Úrslitin voru 3-2 sigur Fram.

Í B-riðli voru Ármann, Grindavík, Haukar og Keflavík. Þar mættust Ármann og Haukar í opnunarleiknum sem Ármann sigraði örugglega 4-0.

FH og Ármann sterkust

FH hafnaði í efsta sæti A-riðils með tvo sigra og eitt jafntefli, sem gaf þeim 5 stig. Á þessum tíma fékk lið tvö stig fyrir sigur og eitt fyrir jafntefli. Í B-riðli bar Ármann af. Þær kláruðu riðilinn með fullt hús stiga og markatöluna 20:1.

Í úrslitaleiknum sem fram fór í Kópavogi þann 24. september mættust FH og Ármann. Niðurstaðan var 2-0 sigur FH, sem voru þar með krýndar Íslandsmeistarar.

Íslandsmeistarar heiðraðir

Íslenska kvennalandsliðið spilar heimaleik gegn Belarús föstudaginn 2. september. Íslandsmeistaraliði FH frá 1972 verður boðið á leikinn og þær heiðraðar.

 

1. deild kvenna A-riðill 1972

1. deild kvenna B-riðill 1972

 

Mynd með frétt: Helgi Dan