• lau. 16. sep. 2023
  • Fræðsla

UEFA CFM nám á Íslandi 2024

UEFA CFM (UEFA Certificate in Football Management) er stjórnunarnám á vegum Knattspyrnusambands Evrópu fyrir einstaklinga sem starfa í knattspyrnuhreyfingunni eða tengjast henni með beinum hætti. Námið er á háskólastigi og hefur verið skipulagt af UEFA síðan árið 2010 í samstarfi við svissnesku námsstofnunina IDHEAP (The Swiss Graduate School of Public Administration, háskólinn í Lausanne).

KSÍ og UEFA munu bjóða upp á UEFA CFM á Íslandi á árinu 2024.

Þátttakendur geta verið allt að 30 (að hámarki 20 frá Íslandi og að hámarki 10 erlendis frá). Námið er að mestu rafrænt og fer allt fram á ensku (námsgögn, verkefni og fyrirlestrar). Rafræni hlutinn (e-learning) er í 10 lotum (modules), 5 lotur sem allir taka og 5 lotur þar sem þátttakendur velja sér eitt viðfangsefni. Haldnar verða 3 vinnustofur, tvær í höfuðstöðvum KSÍ (24.-25. janúar 2024 og 29.-30. október 2024) og ein rafræn (29.-30. maí 2024). Kennarar og fyrirlesarar eru tilnefndir af UEFA/IDHEAP og hafa þau öll mikla reynslu af því að starfa í alþjóðlegu umhverfi knattspyrnuhreyfingarinnar – hjá knattspyrnusamböndum, knattspyrnufélögum og fyrirtækjum eða stofnunum með sterka tengingu við knattspyrnu. Náminu lýkur með útskrift í október 2024 að undangengnum skilum á tveimur skriflegum verkefnum og munnlegu lokaprófi.

Vakin er athygli á að UEFA CFM námið er umfangsmikið og skv. upplýsingum frá UEFA/IDHEAP má reikna með allt að 330 klukkustundum í yfirferð námsgagna, vinnslu verkefna og þátttöku í vinnustofum. Engar undanþágur eru gefnar á yfirferð námsgagna eða verkefnaskilum og skyldumæting er á allar þrjár vinnustofurnar.

Við lok námsins, sem er viðurkennt af öllum háskólum í Evrópu, hefur nemandinn lokið 10 ECTS einingum.
Námið kostar 50.000 kr. Gjaldið er ekki hægt að fá endurgreitt ef þátttakandi hættir eftir að námskeiðið er hafið. KSÍ greiðir gistingu fyrir þátttakendur ef þörf er á.

Umsóknarglugginn er 15. september-6. október og niðurstaða umsókna mun liggja fyrir um mánaðarmótin október/nóvember. Nánari upplýsingar veitir Dagur Sveinn Dagbjartsson (dagur@ksi.is) og umsóknareyðublað er að finna í viðhengi.

Umsóknareyðublað