• lau. 18. nóv. 2023
  • Landslið
  • U15 kvenna

3-3 jafntefli gegn Spáni hjá U15 kvenna

U15 landslið kvenna gerði í dag 3-3 jafntefli gegn Spáni í fyrsta leik sínum á UEFA Development Tournament sem fram fer í Portúgal.  Eins og lokatölurnar gefa til kynna var um hörkuleik að ræða, fjörugan og stórskemmtilegan.

Fanney Lísa Jóhannesdóttir náði forystunni fyrir íslenska liðið eftir um hálftíma leik, en Spánverjar svöruðu með tveimur mörkum fyrir hlé.  Fanney Lísa jafnaði metin um miðbik seinni hálfleiks en spænska liðið náði forystu að nýju með þrumu skoti utan teigs, áður en Hafrún Birna Helgadóttir jafnaði metin þegar um 10 mínútur voru til leiksloka.  Þar við sat og liðin skildu jöfn.

Næsta umferð í þessu æfingamóti UEFA er leikin á mánudag og þá mætir Ísland liði Portúgals.

Allir leikir liðsins á mótinu verða sýndir í beinni útsendingu á Youtube síðu KSÍ.

Youtube síða KSÍ

U15 landslið kvenna