• mið. 21. feb. 2024
  • Agamál

Spurt og svarað um aga- og úrskurðarmál hjá KSÍ

Hvert er skipulag aga- og úrskurðarmála hjá KSÍ? Hver eru dómstigin? Hvað er hægt að kæra og hvernig er það gert?

Aga- og úrskurðarnefnd hefur tvíþætt meginhlutverk, annars vegar úrskurðar nefndin í agamálum og hins vegar er nefndin úrskurðaraðili á fyrsta dómstigi í kærumálum. Nefndin starfar óháð KSÍ, en hefur sér til aðstoðar starfsmann á skrifstofu KSÍ, og fundar vikulega á keppnistímabilinu. Árið 2023 voru reglulegu fundirnir alls 35. Þar fyrir utan kemur nefndin saman á aukafundum fyrir keppnistímabilið og á keppnistímabilinu sjálfu til að fjalla um einstök mál.  Á árinu 2023 bárust nefndinni 20 kærumál og kvað hún upp úrskurð í öllum þeirra. Sex úrskurðum nefndarinnar var áfrýjað til Áfrýjunardómstóls KSÍ.

Miðlar KSÍ leituðu til Hauks Hinrikssonar, lögfræðings á skrifstofu KSÍ og lögðu fyrir hann ýmsar spurningar um agaregluverkið hjá sambandinu.

Hvernig er skipulag agaregluverksins hjá KSÍ? Hvaða einingar eða dómstig eru þarna og hvernig vinna þau?

Skipulag agaregluverksins er keimlíkt því sem fyrir er að finna hjá öðrum knattspyrnusamböndum. Í aga- og kærumálum þá erum við með neðra dómstig (aga- og úrskurðarnefnd) og efra dómstig (áfrýjunardómstóll). Töluvert fleiri mál fá umfjöllun hjá neðra dómstigi og fundar aga- og úrskurðarnefnd mjög reglulega eða a.m.k. einu sinni í viku á þriðjudögum yfir keppnistímabilið. Á fundum nefndarinnar eru tekin fyrir atvik vegna brottvísana og annarra agamála sem berast til nefndarinnar, sérstaklega frá dómara eða eftirlitsmönnum úr knattspyrnuleikjum á vegum KSÍ. Þeim úrskurðum aga- og úrskurðarnefndar sem aðilar vilja ekki una er hægt að áfrýja til áfrýjunardómstóls KSÍ, að því gefnu að tiltekin skilyrði séu uppfyllt.

Hver er munurinn á agamálum annars vegar og svo kærumálum hins vegar?

Agamál fjalla um þau atvik og atriði sem fram koma í atvikaskýrslum dómara og/eða eftirlitsmanna KSÍ í knattspyrnuleikjum. Er þar t.d. átt við skýrslur dómara eða eftirlitsmanna vegna brottvísana leikmanna, þjálfara eða forráðamanna eða annarrar hegðunar á leikvelli eða á leikvangi, fyrir, á meðan eða eftir leik. Slík mál eru alla jafna tekin fyrir strax á næsta þriðjudagsfundi aga- og úrskurðarnefndar eftir að atvik eiga sér stað. Undir agamál falla einnig alvarleg agabrot sem dómari og aðstoðarmenn hans sáu ekki í leik og brugðust því ekki við. Í slíkum tilfellum hefur máli verið skotið til nefndarinnar af málskotsnefnd KSÍ sem getur, ef vafi leikur á atvikum, stuðst við myndbandsupptöku.

Undir kærumál falla önnur meint brot á lögum- eða reglugerðum KSÍ. Þarna geta átt undir kærur m.a. vegna meints ólöglegs leikmanns, rangrar skýrsluskráningar, ákvörðunar stjórnar KSÍ, óheimillar veðmálastarfsemi og jafnvel vegna ákvarðanatöku dómara í leik. Afgreiðsla kærumála tekur almennt lengri tíma en afgreiðsla agamála þar sem gert er ráð fyrir að kærða sé veittur sjö daga frestur til að koma að sínum athugasemdum í málinu í formi greinargerðar. Einnig eru gerðar meiri kröfur til efnis úrskurða nefndarinnar í kærumálum fremur en í agamálum og því fer meiri vinna og meiri tími í gerð úrskurða í kærumálum.

Hvaða fólk er í þessum dómstigum og hvernig eru þau valin til verksins? Getur hver sem er boðið sig fram?

Vegna setu í aga- og úrskurðarnefnd og áfrýjunardómstóli KSÍ gilda hæfisreglur. Formaður aga- og úrskurðanefndar og varaformenn skulu vera löglærð og mega allir meðlimir hvorki vera í launuðu starfi né sitja í stjórnum eða ráðum aðildarfélaga og/eða knattspyrnusambandsins. Sömu hæfisreglur gilda um þau sem skipa áfrýjunardómstól KSÍ að því frátöldu að þau þurfa öll að vera löglærð. Öll þau sem starfa í aga- og úrskurðarnefnd og áfrýjunardómstóli eru sjálfboðaliðar og getur hver sem er boðið sig fram til verka svo fremi sem uppfyllt séu skilyrði laga KSÍ og almenn hæfiskilyrði í íþróttahreyfingunni.

Hver er tilgangur aga- og úrskurðarnefndar, og svo áfrýjunardómstóls?

Tilgangur aga- og úrskurðarnefndar, og svo áfrýjunardómstóls er fyrst og fremst sá að knattspyrnutengd ágreinings- og agamál fái skjóta úrlausn innan knattspyrnuhreyfingarinnar. Markmiðið er að aðilar innan knattspyrnuhreyfingarinnar geti leitað til þessara dómstiga án atbeina almennnra dómstóla og þannig tryggt eðlilegan framgang og hraða mótahalds.

Hvað er hægt að kæra, hvernig er það gert og hverjir geta kært?

Einstaklingur og/eða félag, sem misgert er við og hefur hagsmuni af meintu broti (innan knattspyrnuhreyfingarinnar) hefur rétt til að leggja fram kæru til aga- og úrskurðarnefndar KSÍ.

Hverju er hægt að áfrýja, hverjir geta áfrýjað og hvernig er það gert?

Aðili að máli sem úrskurðað hefur verið í hjá aga- og úrskurðarnefnd getur áfrýjað þeim úrskurði til áfrýjunardómstóls KSÍ. Þó er áfrýjun mála settar nokkrar skorður. Sem dæmi má nefna að úrskurði um leikbann í færri en þrjá leiki er almennt ekki hægt að áfrýja og sömuleiðis er ekki hægt að áfrýja úrskurði um sekt sem nemur 50.000 kr. eða lægri upphæð. Ávallt er heimilt að áfrýja til áfrýjunardómstóls KSÍ öllum úrskurðum aga- og úrskurðarnefndar í kærumálum.

Hvað er hægt að fara langt með mál sem koma inn til KSÍ?

Niðurstöðum ágreinings- og/eða kærumála innan KSÍ er heimilt að skjóta með áfrýjun til Alþjóða Íþróttadómstólsins (CAS – Court of Arbitration for Sport). Á það aðeins við ef málskotsleiðir innan íþróttahreyfingarinnar á Íslandi hafa verið tæmdar. Alþjóða Íþróttadómstóllinn (CAS) leysir þá endanlega úr ágreiningsmálinu í samræmi við reglur um gerðardómsmeðferð mála á íþróttasviði (Code of Sports-Related Arbitration). Tilteknum tegundum mála hér a landi má einnig áfrýja til áfrýjunardómstóls ÍSÍ, en það á aðeins við um þau mál sem varða Ólympíusáttmálann eða túlkun á honum.

Geta félög leitað til KSÍ um ráðgjöf?

Félög og aðrir sem geta verið aðilar að ágreiningsmálum hjá dómstigum KSÍ geta leitað til skrifstofu KSÍ og fengið ráðgjöf. Ráðgjöf getur t.d. falist því að leiðbeina viðkomandi hvar lög- og reglugerðir KSÍ er að finna og hvernig megi skjóta ágreiningi til aga- og úrskurðarnefndar eða hvernig skuli taka til varna í slíkum málum.

Hvers vegna er mikilvægt fyrir knattspyrnuhreyfinguna að vera með skýrt og gegnsætt (og formfast) agakerfi?

Afar mikilvægt er að aðilum innan knattspyrnuhreyfingarinna standi til boða að leita til dómstiga KSÍ með sín ágreiningsmál. Sömuleiðis er mikilvægt að þar starfi hæft fólk sem er lýðræðislega kosið til starfa á ársþingi knattspyrnusambandsins. Dómstigin starfa sjálfstætt gagnvart KSÍ, aðildarfélögum og öðrum aðilum ágreiningsmála til að gæta hlutleysis við meðferð mála. Til að tryggja skýrleika og gegnsæi eru allir úrskurðir aga- og úrskurðarnefndar birtir opinberlega á vef KSÍ og það sama gildir um dóma áfrýjunardómstóls. Allar reglugerðir KSÍ eru sömuleiðis aðgengilegar og sýnilegar á vef sambandsins.