• mán. 22. apr. 2024
  • Fræðsla

Ungmennaþing KSÍ fór fram á sunnudag

Annað ungmennaþing KSÍ fór fram á sunnudag í höfuðstöðvum KSÍ. Þingið var fyrir ungmenni fædd 2004-2011 og mættu um 70 ungmenni af öllu landinu.

Ungmennaráð KSÍ sá um undirbúning þingsins sem var hið glæsilegasta. Þrjú aðalumræðuefni þingsins voru andleg heilsa, jafnrétti og retention/hvernig höldum við ungmennum lengur í fótbolta?

Góðar umræður mynduðust og verður unnið úr niðurstöðum umræðuhópanna og þær gefnar út innan skamms. Auk þess að ræða málefni sem brenna á ungmennum í íslenskum fótbolta var farið í skoðunarferð um höfuðstöðvar KSÍ. Þær Sif Atladóttir og Salvör Nordal, umboðsmaður barna, ávörpuðu þingið og Vanda Sigurgeirsdóttir sá um fundarstjórn. Einn af hápunktunum fyrir marga var þegar landsliðsfólkið Telma Ívarsdóttir, Birkir Már Sævarsson og Hannes Þór Halldórsson mættu á svæðið og töluðu við krakkana.

Ungmennaráð KSÍ vill þakka þeim félögum sem sendu fulltrúa á þingið sem og öllum þeim sem mættu með það fyrir augum að efla knattspyrnu ungmenna á Íslandi.