• þri. 07. maí 2024
  • Fræðsla

Dagur barna- og unglingaráða haldinn á dögunum

Dagur barna- og unglingaráða var haldinn í höfuðstöðvum KSÍ á dögunum. Dagurinn var ætlaður öllum þeim sem sitja í barna- og unglingaráðum aðildarfélaga KSÍ, yfirþjálfurum og öðrum sem koma að barna- og unglingastarfi félaganna.

Á fundinum var meðal annars rætt um hlutverk barna- og unglingaráða. Haukur Hinriksson, lögfræðingur hjá KSÍ fór yfir lög og reglur um starfsemi yngri flokka, talaði um skyldur Knattspyrnusambands Íslands sem og skyldur knattspyrnufélaga.

Vésteinn Hafsteinsson, afreksstjóri hjá ÍSÍ, talaði um afreksstarf og það hvort að fótbolti væri fyrir alla. Vésteinn sagði frá Norræna módelinu þar sem öll eru velkomin til þátttöku í íþróttastarfi og að í því módeli gangi íþróttir út á farsæld og vellíðan ungs fólks. Vésteinn lagði áherslu á að börn ættu ekki að sérhæfa sig í einni íþrótt fyrr en í fyrsta lagi við 15 ára aldur. Ef sérhæfing byrjar fyrr eru 5% líkur á að viðkomandi einstaklingur verði afreksíþróttamaður í íþróttinni en líkurnar eru 25% ef sérhæfing byrjar eftir 15 ára aldur. Einnig talaði Vésteinn um hlutverk þjálfara og foreldra.

Hildur Jóna Þorsteinsdóttir fór yfir framtíð kvennaboltans þar sem málefni 2. flokks, varaliða og venslaliða voru rædd.

Góðar umræður mynduðust og einnig mynduðust góð tengsl á milli félaga.

Í lok dagsins var ákveðið að senda ályktun til stjórnar KSÍ. Ályktunin hljóðar svo:

„Þess er óskað að vinna verði sett af stað til að ramma inn og skýra hlutverk og skyldur barna- og unglingaráða knattspyrnufélaga. Þá er óskað eftir því að KSÍ setji skýrari ramma um það hvernig félögum ber að ráðstafa barna- og unglingastyrk UEFA og að félögum verði gert að gera grein fyrir því hvernig hann er nýttur”.