• fim. 23. okt. 2025
  • Dómaramál
  • Skrifstofa

Þóroddur Hjaltalín tekur við sem dómarastjóri KSÍ

Magnús Már Jónsson, sem hóf störf sem dómarastjóri hjá KSÍ þann 1. júlí árið 2007, lætur af störfum um komandi áramót. Þóroddur Hjaltalín mun taka við stöðu dómarastjóra KSÍ frá og með 1. nóvember næstkomandi og vinna með Magnúsi fram að áramótum.

Þóroddur, sem hefur verið starfsmaður í dómaramálum á innanlandssviði hjá KSÍ síðan snemma árs 2022, á að baki langan feril sem knattspyrnudómari og eftirlitsmaður, á innlendum jafnt sem alþjóðlegum vettvangi, auk þess að hafa um skeið setið í stjórn KSÍ og gegnt formennsku í dómaranefnd. Á meðal verkefna Þórodds hjá KSÍ síðustu ár hafa verið stefnumótun í dómaramálum, fræðslu- og útbreiðslustarf og fjölgun dómara.

Samhliða þessari breytingu verða gerðar ákveðnar tilfærslur á verkefnum og skipulagi dómaramála á innanlandssviði og fljótlega verður ráðið í nýtt stöðugildi á sviðinu, en umsóknarfrestur þar rann út 15. október síðastliðinn.

Starfsmaðurinn sem ráðinn verður í nýja stöðugildið mun starfa á innanlandssviði með dómarastjóra og öðrum hjá KSÍ við að sinna almennri vinnu við dómaramál. Hann mun m.a. hafa umsjón með ferðatilhögun dómara, umsjón með búnaði dómara, aðstoða við niðurröðun á leiki, við skipulag námskeiða, við útgáfu námsefnis tengt dómaramálum og styðja félögin við fjölgun dómara.

Magnús Már, sem hefur staðið vaktina í rúmlega 18 ár, mun sem fyrr segir starfa hjá KSÍ fram að áramótum og láta þá af störfum.