Knattspyrnusambönd Norðurlanda og Eystrasaltsríkja efla samstarf
Formenn knattspyrnusambanda Íslands, Danmerkur, Eistlands, Finnlands, Lettlands, Litháens, Noregs og Svíþjóðar komu saman í Helsinki í byrjun vikunnar til fundar um samstarf knattspyrnusambanda á Norðurlöndum og við Eystrasalt. Færeyjar gátu því miður ekki tekið þátt að þessu sinni.
Fundurinn gaf tækifæri til opinna skoðanaskipta og umræðu um stöðu knattspyrnu í hverju landi. Forsetarnir deildu einnig sjónarmiðum um ýmis alþjóðleg málefni og þróun innan evrópskrar og alþjóðlegrar knattspyrnu. Danmörk og Svíþjóð kynntu stöðu sameiginlegs boðs síns í lokakeppni EM kvenna 2029.
„Samstarf okkar byggir á gagnkvæmri virðingu og vilja til að deila reynslu sem styrkir knattspyrnu í löndum okkar,“ sagði Þorvaldur Örlygsson, formaður Knattspyrnusambands Íslands. „Við eigum margt sameiginlegt, en nálgumst einnig ákveðin mál á ólíkan hátt og sú fjölbreytni er mikilvæg fyrir áframhaldandi þróun knattspyrnu í samstarfi milli landa.“
Forsetarnir lögðu áherslu á að samstarfið snúist ekki um að mynda atkvæðablokk innan samtaka á borð við UEFA eða FIFA. Hvert samband heldur áfram að taka sjálfstæðar ákvarðanir í samræmi við eigin sjónarmið, forgangsröðun og þjóðarhagsmuni. Sameiginlegar umræður stuðla að skilningi, samhæfingu og uppbyggilegri þátttöku í þágu knattspyrnu í Norður-Evrópu.






