• 28.04.2017 00:00
  • Pistlar

Enginn dómari - enginn leikur

Það líður að upphafi knattspyrnuvertíðar og vor í lofti. Knattspyrnuspekingar á öllum aldri, konur og karlar skiptast á skoðunum sem aldrei fyrr - sem betur fer - því yfir 20.000 iðkendur knattspyrnu eiga sér fjölskyldur og vini, sem hafa brennandi áhuga á fótbolta! Eftir frábært gengi íslensku landsliðanna þá er von okkar og ósk sú að enn megi gera betur, enda má halda því fram að í þjálfun og aðstöðu sé bara býsna margt betur gert en víða meðal stórþjóða. Fámennið kallar hins vegar á að vel spilist úr þeim iðkendum sem leggja á sig ómældar æfingar til að ná árangri og að áfram megi treysta á það ómetanlega sjálfboðaliðastarf sem unnið er í félögunum í landinu. En til þess að allur kapallinn gangi upp þá þarf dómara. Á þeim hafa margir skoðun en fæstum er þó ljós stóra myndin þegar fjallað er um dómaramál. 

Fyrst skal nefnt að félögin njóta endurgjaldslausrar dómgæslu í þeim leikjum sem KSÍ annast, en dómararnir koma frá félögunum. Heildar dómarakostnaður á árinu 2017 verður um 130,0 mkr. og fjöldi dómarastarfa, sem áætlað er að leysa á þessu ári eru alls um 4.500 í þeim 1500 - 1600 leikjum sem KSÍ mun annast dómgæslu í á árinu 2017. Þar af eru verkefni landsdómara um 2.600. Sá hópur sem mun leysa verkefnið í ár telur alls um 160 dómara frá 55 félögum. Þar af eru landsdómarar, sem dæma í efstu þremur deildum karla og kvenna alls 51 frá 33 félögum. Af þeim tæplega 90 félögum sem þurfa á dómgæslu að halda í sumar eru því engir landsdómarar frá tæplega 60 félögum og í heild eru engir dómarar frá um 35 félögum. Þá er fámenni kvenna í dómarastétt óviðunandi staða fyrir alla. En einungis 6 konur sinna dómgæslu í leikjum meistaraflokka þetta sumarið. 

Verkefnin í dómaramálum eru því mörg og stór - en þau helstu þessi: 

  • Til þess að fjöldi dómara verði viðunandi þurfa félögin að taka sig á - ekki síst þau sem engum dómurum skila til starfsins. Of fá félög standa sig vel í þeim efnum. 
  • Finna þarf leið til þess að dómarar sem vinna að KSÍ leikjum sinni einnig verkefnum sínum félögum og að á þá verði litið sem gilda þátttakendur í starfi félaganna. 
  • Konur sem sinna dómgæslu eiga góða möguleika á spennandi verkefnum innanlands sem utan. Átaks er þörf í að fjölga konum sem dæma leiki og mun KSÍ leggja upp með áætlun í þeim efnum - en félögin verða að styðja við það frumkvæði. 
  • Áfram verður það verkefni ofarlega á baugi að forráðamenn liða, þjálfarar, leikmenn, áhorfendur og foreldrar láti ekki kappið bera sig ofurliði gagnvart þeim sem sinna dómgæslu. Ófáir dómarar hafa hætt í kjölfar ómaklegrar framkomu í þeirra garð og því VERÐUR að breyta. 
  • Íslenskir dómarar hafa allnokkrir náð góðum árangri á alþjóðlegum vettvangi. Það er sem fyrr mikilvægt að eiga FIFA dómara sem fái verðug verkefni. 

Verkefnin eru fleiri en hér að ofan eru þau helstu nefnd. Ónefndir eru eftirlitsmennirnir sem fylgjast með störfum dómara á leikjum, meta kosti þeirra og það sem betur má fara, en hlutverk eftirlitsmanna er m.a. til að stuðla að framgangi og framförum dómara. 

Starfsmenn KSÍ sem raða dómurum á leiki þurf að gæta að ýmsu. Fyrst að velja úr þeim hópi sem til reiðu er hverju sinni og skoða félagatengsl þeirra. En fleira þarf að skoða. M.a. þarf að horfa til annarra tengsla dómara við leikmenn eða þjálfara félaga, hvort einhver saga sá á bak við dómgæslu fyrri leikja sömu liða, hversu marga leiki viðkomandi dómari hefur dæmt hjá hverju liði, hvernig dómara hefur gengið síðustu leiki, hvernig best sé að "para" saman dómaratríó, hvernig stendur á gagnvart erlendum verkefnum, búseta viðkomandi m.t.t. ferðakostnaðar, meiðsli dómarar og sumarfrí. Þetta er því ekki alltaf eins einfalt og virðist vera. Eftir stendur sú staðreynd að framþróun íslenskrar knattspyrnu byggist m.a. á því að við eigum harðsnúið lið dómara, sem eru tilbúnir til verka. Áskorunin er hins vegar að öll félög innan KSÍ leggi sitt að mörkum, en þar má gera mun betur.

Kristinn Jakobsson                      Borghildur Sigurðardóttir             Gísli Gíslason
formaður dómaranefndar           Í stjórn KSÍ og dómaranefnd       í stjórn KSÍ og dómaranefnd