• mið. 08. ágú. 2018
  • Landsliðið

A karla - Erik Hamrén næsti þjálfari liðsins

Svíinn Erik Hamrén var í dag kynntur sem nýr landsliðsþjálfari A landsliðs karla, en hann tekur við af Heimi Hallgrímssyni sem lét af störfum eftir HM í Rússlandi. Freyr Alexandersson var á sama tíma kynntur sem aðstoðarmaður hans. Samningar þeirra eru til tveggja ára.

Erik hefur mikla reynslu af þjálfun. Hann gerði AaB að dönskum meisturum árið 2008 og Rosenborg árin 2009 og 2010. Einnig varð hann sænskur bikarmeistari með AIK 1996 og 1997 og síðan með Örgryte árið 2000.

Hann var kosinn þjálfari ársins í Danmörku árið 2008 og í Noregi árið 2009.

Árið 2010 tók hann við þjálfun sænska landsliðsins og kom hann liðinu á EM árin 2012 og 2016. Þá kom hann Svíþjóð í umspil undankeppni HM 2014 þar sem liðið beið lægri hlut gegn Portúgal. Sigurhlutfall hans með landsliðinu var 54,22%.

Erik er giftur og á tvær dætur. KSÍ hlakkar til samstarfsins og ljóst er að spennandi tímar eru framundan.

Á sama tíma vill KSÍ þakka Helga Kolviðssyni og Guðmundi Hreiðarssyni fyrir frábær og óeigingjörn störf síðustu ár.