• sun. 13. jan. 2019
  • Landslið
  • A karla

A karla mætir Eistlandi á þriðjudag

A landslið karla mætir Eistlandi í vináttuleik á þriðjudag.  Leikurinn er hluti af vináttuleikjaröð í Katar, þar sem Ísland, Svíþjóð, Finnland og Eistland taka þátt, og leikur hvert lið tvo vináttuleiki. Ekki er um alþjóðlega leikdaga að ræða og því eru liðin að mestu skipuð leikmönnum sem leika á Norðurlöndunum og í deildunum heima fyrir.

Svíar mættu Finnum og töpuðu 0-1, og léku næst gegn Íslendingum, þar sem niðurstaðan var 2-2 jafntefli, eins og kunnugt er.  Eftir sigurinn á Svíum léku Finnar gegn Eistlandi, þar sem Eistarnir höfðu 2-1 sigur.  Síðasti leikurinn í þessari vináttuleikjaröð er svo viðureign Íslands og Eistlands á þriðjudag, en leikurinn fer fram á Jassim Bin Hamad leikvanginum í Doha, heimavelli Al Sadd, sem tekur um 13 þúsund manns í sæti.  Ekki er þó búist við mörgum áhorfendum á leiknum, frekar en á aðra fyrrgreinda leiki.

Ísland og Eistland hafa mæst fimm sinnum áður í A landsliðum karla og er í öllum tilfellum um að ræða vináttuleiki.  Ísland hefur unnið þrjá þeirra, einum hefur lokið með jafntefli og einum með eistneskum sigri.  Markatalan í þessum leikjum er 9-3, Íslandi í vil.  Leikurinn á þriðjudag hefst kl. 16:45 að íslenskum tíma.  Hægt verður að fylgjast með aðdraganda leiksins og framgangi á samfélagsmiðlum KSÍ (Twitter og Facebook) og í textalýsingu á vefsíðunni Fótbolti.net.

KSÍ á Twitter

KSÍ á Facebook

KSÍ á Instagram