• mán. 04. mar. 2019
  • Landslið
  • A kvenna

A kvenna - 1-4 tap gegn Skotlandi

Ísland tapaði 1-4 gegn Skotlandi á Algarve Cup, en um var að ræða seinni leik liðsins í riðlakeppni mótsins. Það kemur síðan í ljós síðar í dag hverjir mótherjar liðsins verða þegar leikið er um sæti á miðvikudaginn.

Skotar byrjuðu leikinn betur, héldu boltanum vel og íslenska liðið átti erfitt uppdráttar þegar það fékk boltann. Þó var lítið um færi til að byrja með og varnirnar héldu nokkuð vel. 

Það var svo á 14. mínútu sem fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós. Skotar fengu hornspyrnu, boltinn datt fyrir Elizabeth Arnot og endaði skot hennar í horninu. Staðan orðin 1-0 fyrir Skotum.

Skotland hélt áfram að stjórna leiknum og sjö mínútum síðar áttu þær horn, en skallinn fór beint á Sonný Láru Þráinsdóttur. Íslensku stelpurnar komust aðeins betur inn í leikinn og nokkrum mínútum síðar átti Hallbera Guðný Gísladóttir fína fyrirgjöf sem Skotum tókst að hreinsa frá.

Stuttu síðar komust Skotar í gegn, en Glódís og Sonný Lára lokuðu vel og skotið fór framhjá. Það gekk hins vegar ekki jafn vel tveimur mínútum síðar, en eftir hornspyrnu skoraði Erin Cuthbert annað mark leiksins. 

Lítið markvert gerðist til loka fyrri hálfleiks og staðan 2-0 fyrir Skotlandi þegar dómarinn flautaði.

Ísland gerði tvær breytingar í hálfleik. Selma Sól Magnúsdóttir og Sigríður Lára Garðarsdóttir komu inn á, en útaf fóru Agla María Albertsdóttir og Andrea Rán Hauksdóttir.

Stelpurnar byrjuðu seinni hálfleikinn vel, voru grimmar og héldu boltanum ágætlega sín á milli. Það voru hins vegar Skotar sem skoruðu fyrsta mark síðari hálfleiksins, en þar var Kim Little að verki með frábæru skoti rétt fyrir utan teig á 56. mínútu.

Það tók Ísland ekki langan tíma að laga stöðuna, en Sara Björk Gunnarsdóttir skoraði fyrsta mark Íslands í leiknum með góðu skoti rétt við teiginn á 58. mínútu.

Eftir markið komu þær Ásta Eir Árnadóttir og Elín Metta Jensen komu inn á, útaf fóru Guðrún Arnardóttir og Rakel Hönnudóttir.

Ísland hélt áfram að komast betur og betur inn í leikinn og var Svava Rós Guðmundsdóttir nálægt því að skora, en skot hennar fór af varnarmanni og framhjá. 

Það var svo á 67. mínútu sem Skotland skoraði fjórða markið. Elizabeth Arnot komst þá ein í gegn eftir frábæra stungusendingu. Sonný Lára varði fyrstu tilraun hennar, en Arnot kom boltanum á endanum yfir línuna.

Þegar um korter var eftir af leiknum kom Margrét Lára Viðarsdóttir inn á í sinn fyrsta landsleik síðan í apríl 2017, en útaf fór Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir.

Skotland var á þessum tímapunkti komin með góð tök á leiknum og voru nálægt því að bæta við fimmta markinu, en Sonný Lára varði vel.

Þegar tæpar tíu mínútur voru eftir kom Dagný Brynjarsdóttir inn á fyrir Svövu Rós Guðmundsdóttur. Sonný Lára varði síðan aftur mjög vel skot Skota úr teignum þegar um þrjár mínútur voru til leiksloka.

1-4 tap því staðreynd eftir erfiðan leik fyrir íslenska liðið.