• mán. 17. jún. 2019
  • Landslið
  • A kvenna

A kvenna - 2-0 sigur gegn Finnlandi

Ísland vann góðan 2-0 sigur gegn Finnlandi, en leikið var ytra. Hlín Eiríksdóttir og Dagný Brynjarsdóttir skoruðu mörk Íslands í fyrri hálfleik.

Finnar voru sterkari aðilinn til að byrja með og fengu fyrsta færi leiksins strax eftir fjórar mínútur. Þær komust í ágætis færi hægra megin í teignum, en skotið fór yfir markið. Sjö mínútum síðar fengu þær ágætis færi, en skalli þeirra fór yfir markið.

Ísland tók hægt og bítandi stjórnina í leiknum eftir þetta og á 17. mínútu átti Dagný skalla yfir markið eftir horn Öglu Maríu Albertsdóttur. Elín Metta Jensen fékk svo skotfæri strax eftir markspyrnuna eftir góða pressu sem markvörður Finna varði ágætlega.

Það var svo á 21. mínútu sem fyrsta mark leiksins kom. Agla María átti fyrirgjöf eftir góða skyndisókn, boltinn barst af varnarmanni út til Hlínar sem setti hann glæsilega í netið. Stelpurnar réðu ferðinni og á 33. mínútu skoruðu þær annað mark sitt. Glódís Perla Viggósdóttir átti þá frábæra sendingu inn á teig, Dagný tók boltann niður og setti hann í netið með góðu skoti.

Þegar um sex mínútur voru eftir af fyrri hálfleik þurfti Berglind Björg Þorvaldsdóttir að fara út af vegna meiðsla. Inn á í hennar stað kom Margrét Lára Viðarsdóttir.

Báðum liðum tókst að skapa sér ágæt færi næstu mínúturnar, en staðan var enn 2-0 fyrir Ísland þegar dómari leiksins flautaði til hálfleiks.

Í hálfleik gerði Ísland tvöfalda skiptingu. Inn á komu þær Fanndís Friðriksdóttir og Alexandra Jóhannsdóttir. Útaf fóru Dagný Brynjarsdóttir og Agla María Albertsdóttir.

Finnar byrjuðu síðari hálfleikinn vel og fengu frábært færi strax á fyrstu mínútum hans, en Guðbjörg Gunnarsdóttir varði frábærlega. Stelpurnar náðu fljótt tökum á leiknum aftur og voru nálægt því að bæta við þriðja markinu eftir um tíu mínútna leik. Boltinn datt þá fyrir Söru Björk Gunnarsdóttur inn í teig, en skot hennar var varið.

Á 61. mínútu kom Karólína Lea Vilhjálmsdóttir inn á í sínum fyrsta A landsleik, en útaf fór Hlín Eíríksdóttir.

Finnar komust betur inn í leikinn, héldu boltanum vel og sköpuðu sér ágætis færi. Íslenska vörnin hélt þó vel og Guðbjörg var traust fyrir aftan hana.

Þegar um korter var til leiksloka komu Guðný Árnadóttir og Sandra María Jessen inn á, útaf fóru Elín Metta Jensen og Ingibjörg Sigurðardóttir. Fljótlega eftir skiptinguna áttu stelpurnar frábæra skyndisókn. Sandra María komst upp vinstri kantinn, sendi hann út á Margréti Láru. Hún kom honum í gegn á Karólínu Leu, en skot hennar fór beint á markvörð Finna.

Finnland var nálægt því að minnka muninn þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum, en skot þeirra fór í stöngina og framhjá. Leikurinn róaðist aðeins undir lokin, en Fanndís átti ágætis skot að marki undir lokin sem fór beint á markvörð Finna.

Fátt fleiri gerðist og 2-0 sigur Íslands staðreynd.