• mán. 09. sep. 2019
  • Landslið
  • U21 karla

U21 karla - Glæsilegur 6-1 sigur gegn Armeníu

Mynd - fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Ísland vann glæsilegan 6-1 sigur gegn Armeníu í undankeppni EM 2021, en leikið var á Víkingsvelli.

Leikurinn var nokkuð jafn til að byrja með, þó Ísland hafi verið ívið sterkari. Fyrsta færi leiksins leit dagsins ljós á 5. mínútu þegar Stefán Teitur Þórðarson átti skot yfir mark Armena.

Fimm mínútum síðar áttu strákarnir góða skyndisókn. Sveinn Aron Guðjohnsen setti boltann á Jón Dag, hann kom honum aftur á Svein Aron en skot hans fór yfir. Á 12. mínútu var það svo Ísak Óli sem skallaði framhjá af stuttu færi eftir hornspyrnu.

Næstu 15 mínúturnar róaðist leikurinn aðeins, en á 30. mínútu kom fyrsta markið. Mikael Neville Anderson lék þá á varnarmann Armena úti á kanti, setti hann fyrir og Willum Þór skallaði hann í netið. Verðskulduð forysta hjá strákunum.

Aðeins fjórum mínútum síðar var það Ísak Óli sem skoraði annað mark Íslands. Stefán Teitur tók þá langt innkast, Sveinn Aron flikkaði honum áfram á Ísak Óli sem stangaði hann í netið. Það var svo Jón Dagur Þorsteinsson sem bætti við þriðja markinu á 40. mínútu með fínu skoti úr teignum.

Sveinn Aron var þrisvar sinnum nálægt því að skora undir lok fyrri hálfleiks, en inn vildi boltinn ekki og staðan því 3-0 í hálfleik.

Ísland gerði eina skiptingu í hálfleik. Inn á kom Hörður Ingi Gunnarsson og útaf fór Kolbeinn Birgir Finnsson.

Strax í upphafi síðari hálfleiks fengu Armenar aukaspyrnu rétt fyrir utan teig, en Patrik Sigurður Gunnarsson varði skotið frábærlega.

Ísland tók fljótlega aftur stjórnina á leiknum, en lítið var um færi fyrstu 10-15 mínútu síðari hálfleiks.

Armenía minnkaði svo muninn á 59. mínútu þegar Karen Melkonyan skoraði með skoti úr teignum. 

Þegar um 20 mínútur voru eftir af leiknum var German Kurbashyan rekinn útaf með tvö gul spjöld. Stuttu síðar komu þeir Jónatan Ingi Jónsson og Brynjólfur Darri Willumsson inn á, útaf fóru Sveinn Aron Guðjohnsen og Mikael Neville Anderson.

Það tók Jónatan Inga aðeins þrjár mínutur að skora, en það gerði hann með góðu skoti úr teignum. Tveimur mínútum síðar var það Ari Leifsson sem skoraði með skalla. 

Strákarnir höfðu algjöra stjórn á leiknum á þessum tímapunkti og settu áfram mikla pressu á vörn Armena. Brynjólfur Darri skoraði sjötta mark Íslands á 80. mínútu. Mínútu síðar komu þeir Þórir Jóhann Helgason og Guðmundur Andri Tryggvason inn á. Útaf fóru Jón Dagur Þorsteinsson og Willum Þór WIllumsson.

Ísland átti þónokkur færi undir lokin til að bæta við mörkum, en það gekk ekki í þetta skiptið og sannfærandi 6-1 sigur staðreynd.