• mán. 02. mar. 2020
  • Dómaramál

Óverulegar breytingar samþykktar á knattspyrnulögunum

Mynd - fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Á 134. ársfundi IFAB (Alþjóðanefndar knattspyrnusambanda) voru samþykktar mjög óverulegar breytingar á knattspyrnulögunum 2020/21.

Breytingarnar taka gildi á alþjóðavettvangi 1. júní 2020, en eins og undanfarin ár er það í valdi stjórnar KSÍ að taka ákvörðun um hvort breytingarnar taki gildi hér á landi allt frá fyrstu spyrnu í Mjólkurbikarnum 8. apríl 2020. Breytingarnar eru þessar helstar:

• Gul spjöld leikmanna munu ekki fylgja þeim inn í vítaspyrnukeppni (sem sagt, leikmaður sem fær gult spjald í leiknum sjálfum getur fengið gult spjald fyrir brot í vítaspyrnukeppninni án þess að því fylgi brottvísun).
• Ef vítaspyrna missir marks, eða boltinn hrekkur aftur í leik af stöng eða slá, þá verður hún ekki endurtekin jafnvel þó markvörðurinn hafi hreyft sig lítillega af marklínunni áður en spyrnan var tekin.
• Ef markvörðurinn brýtur af sér í vítaspyrnukeppni þá mun hann fá tiltal fyrir fyrsta brot áður en gripið verður til gula spjaldsins.
• Nánari skilgreining verður gerð á handlegg/öxl við mat á hendi.

Til viðbótar við ofangreindar lagabreytingar voru eftirfarandi samþykktir gerðar á fundinum:
• Að gera tilraunir með "tímabundnar skiptingar" í tilfellum þar sem leikmenn hafa hugsanlega hlotið heilahristing. Stefnt er að því að gera tilraunir með slíkt verklag í knattspyrnukeppni karla og kvenna á Ólympíuleikunum í Tókýó í júlí 2020.
• Að fara í ítarlega greiningu á því hvernig best megi aðlaga rangstöðuregluna með hagnað sóknarfótbolta í huga.
• Að skerpa á ákvæðum laganna varðandi refsingar fyrir leikmenn sem hópast um dómarann og þar sem "hópögranir" milli leikmanna eiga sér stað.
• Að finna lausnir sem gera öllum þjóðum (deildarkeppnum/knattspyrnumótum) kleift, innan sinnar takmörkuðu fjárhagsgetu, að nýta sér VAR, en nýstofnuðum starfshópi FIFA um nýsköpun innan knattspyrnunnar hefur verið falið að leiða það starf.