• fim. 26. mar. 2020

KSÍ stofnað 26. mars fyrir 73 árum

Í dag, fimmtudaginn 26. mars, fagnar Knattspyrnusamband Íslands 73 ára afmæli sínu. Fjórtán félög og íþróttabandalög stofnuðu KSÍ 26. mars 1947 og var Agnar Klemens Jónsson fyrsti formaður KSÍ.

Þegar haldið var upp á 50 ára afmæli KSÍ árið 1997 var gefin út bókin “Knattspyrna í heila öld” eftir þá Víði Sigurðsson og Sigurð A. Friðþjófsson. Í þeirri bók er þannig sagt frá stofnun KSÍ:

,,Stofnfundurinn var haldinn við Vonarstræti (sjá mynd) í Reykjavík. Fimmtán fulltrúar frá tólf félögum mættu á fundinn; Fram, KR, Víkingi og Val úr Reykjavík, Haukum og FH úr Hafnarfirði, Kára og KA frá Akranesi, Þór og KA frá Akureyri og Þór og Tý frá Vestmannaeyjum. Auk þess óskuðu Íþróttabandalag Ísafjarðar og Íþróttabandalag Siglufjarðar eftir því að taka þátt í stofnun KSÍ, en þau gátu ekki sent fulltrúa á fundinn. Alls voru því félög og íþróttabandalög sem áttu aðild að KSÍ frá byrjun 14 talsins."

Eins og flestir vita þá átti A landslið karla að mæta Rúmeníu í dag í umspili undankeppni EM 2020, en þeim leik var frestað vegna Covid-19. Í staðinn munu e-landslið þjóðanna mætast í FIFA og verður hægt að sjá beina útsendingu frá leiknum á Twitch síðu KSÍ.

Twitch síða KSÍ

Frekari upplýsingar um leikina