• fös. 23. okt. 2020
  • Landslið
  • A karla

Dregið í undankeppni HM 2022 í desember

Dregið verður í undankeppnina í Evrópu fyrir HM 2022 þann 7. desember næstkomandi í höfuðstöðvum FIFA í Zurich.  Drættinum verður streymt á vefsíðu FIFA, en fulltrúar 55 aðildarlanda FIFA í Evrópu sem taka þátt í undankeppninni verða ekki viðstaddir.  

Evrópa á 13 sæti í úrslitakeppni HM 2022, sem fram fer í Katar.  Í undankeppninni er 55 þjóðum skipt í 6 styrkleikaflokka og við flokkunina verður litið til stöðunnar á styrkleikalista FIFA sem gefinn verður út þann 26. nóvember.  Tíu lið verða í fyrstu fimm styrkleikaflokkunum og fimm lið í þeim sjötta.  Þessi lið skiptast í 10 riðla - Fimm 6 liða riðlar og fimm 5 liða riðlar.  Leikið verður heima og heiman eins og venja er, frá mars 2021 til nóvember 2021.  Efsta lið hvers riðils kemst beint í lokakeppnina í Katar, en liðin í öðru sæti hvers riðils fara í umspil.  Við umspilið bætast tvö lið með bestan árangur í Þjóðadeild UEFA, önnur en þau sem hafa þá þegar tryggt sér sæti í lokakeppninni eða umspilinu með því að hafna í öðru af tveimur sætum síns riðils í undankeppni HM.  Liðin 12 í umspilinu leika í útsláttarkeppni þar til 3 lið standa eftir, sem komast þannig í lokakeppnina.

Undankeppnin er hafin í Afríku, Asíu og Suður-Ameríku og hafa alls 146 leikir nú þegar farið fram.  Úrslitakeppnin hefst 21. nóvember 2022.

Allt um HM 2022 á vef FIFA