• þri. 10. nóv. 2020
  • Mannvirki

Mikilvæg skref stigin vegna þjóðarleikvangs fyrir knattspyrnu

Mynd - fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að hefja viðræður við Reykjavíkurborg um næstu skref vegna byggingar nýs þjóðarleikvangs í knattspyrnu, að tillögu mennta- og menningarmálaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra.

Með slíkum viðræðum er mikilvægt skref stigið í þeirri vegferð að byggja keppnisaðstöðu sem stenst alþjóðlegar kröfur, en undanfarin ár hefur Laugardalsvöllur þurft undanþágur og sérstakan viðbúnað vegna keppnisleikja í alþjóðlegum mótum.

Guðni Bergsson, formaður KSÍ:

,,Ég er gríðarlega ánægður og þakklátur fyrir að ríkisstjórnin með viðkomandi ráðherrum ætli nú að fylkja sér um byggingu nýs þjóðarleikvangs og fara í lokaáfanga undirbúnings verkefnisins. Þetta er orðið tímabært enda getum við ekki leikið alla þá heimaleiki sem við þurfum að leika hér á landi að vetri til. Sú staðreynd skerðir möguleika okkar að ná árangri og komast á stórmót. Núverandi aðstaða á vellinum er áratugum á eftir því sem þekkist á öðrum þjóðarleikvöngum í Evrópu.

,,Nýr þjóðarleikvangur mun ekki einungis þjóna landsliðum okkar heldur einnig íslenskum félagsliðum og samfélaginu öllu sem nýr og glæsilegur vettvangur fyrir fótboltaleiki, sýningar, viðburði og tónleikahald."

Viðræður við Reykjavíkurborg munu byggja á valkostagreiningu breska ráðgjafafyrirtækisins AFL, sem varð hlutskarpast í útboði sem efnt var til á evrópska efnahagssvæðinu snemma árs. Í greiningunni er kostnaðar- og tekjumat eftirtalinna valkosta, auk viðskiptaáætlunar og mats á efnahagslegum þáttum:

a. Að núverandi völlur verði að mestu leyti óbreyttur, en ráðist verði í lágmarksendurbætur og -lagfæringar.
b. Að Laugardalsvöllur verði endurbættur svo hann uppfylli kröfur og staðla Knattspyrnusambands Evrópu (EUFA) og Alþjóða knattspyrnusambandsins (FIFA).
c. Að byggður verði nýr 15.000 manna leikvangur, með opnanlegu þaki eða án þaks.
d. Að byggður verði fjölnotaleikvangur með 17.500 sætum, með opnanlegu þaki eða án þaks.

Völlur með sætum fyrir 15.000 áhorfendum talinn hagkvæmasti kosturinn

AFL telur að 15.000 manna leikvangur án þaks sé hagkvæmasti kosturinn, ef eingöngu sé horft til beinna fjárhagslegra þátta. Hins vegar myndi slíkur leikvangur með opnanlegu þaki skila bestu heildarniðurstöðunni m.t.t. vinnsluvirðis, efnahagslegra áhrifa, nýtingar og fleiri þátta. Þá telur AFL að ofangreindir valkostir A og B séu ekki fýsileg langtímalausn.

Valkostagreiningin var unnin að undirlagi Þjóðarleikvangs ehf., félags sem KSÍ, Reykjavíkurborg og ríkið stofnuðu til að halda utan um verkefnið.

Frétt á vef Stjórnarráðsins