• mið. 18. nóv. 2020
  • Landslið
  • A karla

Tap gegn Englandi

Ísland tapaði 0-4 gegn Englandi í Þjóðadeild UEFA, en leikurinn fór fram á Wembley í London.

England var mun betri aðilinn í fyrri hálfleik og stjórnaði leiknum. Þrátt fyrir það áttu þeir í erfiðleikum með að skapa sér opin færi, en það var svo á 20. mínútu sem Declan Rice skoraði fyrsta mark leiksins. Phil Foden tók aukaspyrnu út á kanti og Rice skallaði boltann í netið.Tveimur mínútum síðar varði Ögmundur Kristinsson vel frá Bukayo Saka.

Aðeins fjórum mínútum eftir mark Rice skoraði England aftur. Nú var það Masoun Mount sem kom boltanum í netið úr vítateignum. Slæmur fimm mínútna kafli hjá strákunum og staðan orðin 2-0. England hélt áfram að stjórna leiknum og Ögmundur varði tvisvar vel frá Foden. Staðan 2-0 fyrir England þegar flautað var til hálfleiks.

Ein skipting var gerð í hálfleik en þá kom Hannes Þór Halldórsson inn á fyrir Ögmund Kristinsson. England hóf síðari hálfleikinn líkt og þann fyrri, hafði góð tök á leiknum og íslenska liðið var í vandræðum með að halda boltanum innan síns liðs. Á 54. mínútu var Birkir Már Sævarsson rekinn útaf þegar hann fékk sitt annað gula spjald og því rautt.

Fyrsta færi Íslands kom á 60. mínútu þegar Kári Árnason skallaði hornspyrnu Ara Freys Skúlasonar rétt framhjá. Á 63. mínútu kom Hólmar Örn Eyjólfsson inn á fyrir Rúnar Má Sigurjónsson.

Leikurinn var fremur tíðindalítill næstu mínúturnar og tókst hvorugu liðinu að skapa sér færi. Á 73. mínútu komu þeir Jón Dagur Þorsteinsson og Kolbeinn Sigþórsson inn á fyrir Jón Daða Böðvarsson og Albert Guðmundsson. 

Þegar um tíu mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma skoraði Phil Foden þriðja mark Englands eftir góða sókn. Fjórum mínútum síðar skoraði Foden aftur, nú með góða skoti fyrir utan teig. Stuttu síðar varði Hannes Þór skot Harry Maguire vel.

Á 88. mínútu kom Ísak Bergmann Jóhannesson inn á í sínum fyrsta A landsleik, en útaf fór Birkir Bjarnason. Fátt markvert gerðist til loka leiksins og 0-4 tap gegn Englandi staðreynd.