• mið. 18. nóv. 2020
  • Landslið
  • U21 karla

U21 karla - riðlakeppni undankeppni EM 2021 lokið

Mynd - fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

U21 ára landslið karla hefur lokið þátttöku sinni í undankeppni EM 2021 og er beðið eftir staðfestingu frá UEFA varðandi framhaldið.

Leikjum Armeníu gegn Svíþjóð og Íslandi, sem áttu að fara fram í nóvember, var frestað en Armenía sá sér ekki fært að mæta í leikina. Beðið er úrskurðar aganefndar UEFA varðandi framhaldið, en líklegt er að með úrskurði UEFA endi Ísland í öðru sæti riðilsins. Fari svo er ljóst að Ísland verði eitt af þeim fimm liðum sem hafa bestan árangur í 2. sæti síns riðils og vinni sér með því sæti í lokakeppni EM 2021.

Lokakeppnin verður haldin í tveimur hlutum í Ungverjalandi og Slóveníu. Riðlakeppnin fer fram dagana 24.-31. mars 2021 og 8-liða úrslit, undanúrslit og úrslitaleikurinn fara svo fram 31. maí - 6. júní.