• þri. 01. des. 2020
  • Landslið
  • A kvenna

Íslenskur sigur í Ungverjalandi

A landslið kvenna vann í dag eins marks sigur á Ungverjalandi í lokaleik liðsins í undankeppni EM 2022, en leikið var á Szusza Ferenc Stadion í Búdapest.

Markalaust var eftir fyrri hálfleikinn en íslenska liðið var klárlega sterkari aðilinn.  Nokkur hættuleg marktækifæri litu dagsins ljós, en Réka Szocs í ungverska markinu varði vel. 

Ísland byrjaði síðari hálfleikinn af miklum krafti og Berglind Björg Þorvaldsdóttir átti gott skot eftir vel útfærða íslenska sókn, en Szocs varði meistaralega.  Tvær breytingar voru gerðar á íslenska liðinu þegar klukkustund var liðin af leiknum, inn komu þær Rakel Hönnudóttir og Svava Rós Guðmundsdóttir.  Fljótlega eftir það kom eina mark leiksins og það gerði Bergling Björg með frábæru skoti utan teigs.  Ungverska liðið sótti aðeins í sig veðrið eftir markið, en íslenska vörnin með Söndru Sigurðardóttur á milli stanganna var vel á verði.

Ekki voru fleiri mörk skoruð í leiknum og úrslitin þýða að íslenska liðið er í góðri stöðu riðlinum og á möguleika á að vera eitt af þremur liðum með bestan árangur í 2. sæti riðlanna, sem myndi þýða að liðið komist beint í úrslitakeppnina.  Ef það gengur ekki eftir, þá leikur íslenska liðið í umspili vorið 2021.

Skoða leikina og stöðuna í riðlinum