• fim. 25. mar. 2021
  • A karla
  • Landslið

Þriggja marka tap í Þýskalandi

A landslið karla tapaði með þremur mörkum gegn Þýskalandi í fyrsta leik sínum í undankeppni HM 2022, en liðin mættust á Schauinsland-Reisen Arena í Duisburg. Það blés ekki byrlega fyrir íslenska liðinu framan af því þýska liðið komst í tveggja marka forystu á fyrstu mínútum leiksins. Leon Goretzka skoraði strax á 3. mínútu og á 7. mínútu hafði Kai Haverts bætt öðru marki við. Íslenska liðið náði að sækja í sig veðrið þó heimamenn hafi verið mun meira með boltann og eftir tæplega háftímaleik átti Jón Daði Böðvarsson góðan sprett og fyrirgjöf og skot Rúnars Más fór af varnarmanni og rétt framhjá.

Þjóðverjar stýrðu hraðanum í leiknum lengst af og það sama var uppi á teningnum í síðari hálfleik, þó hann hafi verið betri hjá íslenska liðinu en sá fyrri. Eina mark síðari hálfleiks gerði Ilkay Gundogan á 56. mínútu og lokatölur leiksins því 3-0 fyrir heimamenn. Fyrirfram var vitað að þessi leikur yrði væntanlega sá erfiðasti í riðlinum. Íslenska liðinu óx ásmegin eftir því sem á leið og verður að líta á þennan leik sem veganesti fyrir leikina tvo sem eru framundan, útileiki gegn Armeníu og Liechtenstein. Armenar mættu Liechtenstein í kvöld og unnu eins marks sigur með sjálfsmarki heimamanna í Liechtenstein seint í leiknum, á meðan Rúmenar unnu 3-2 sigur á Norður-Makedónum í hörkuleik.

Undankeppni HM 2022

Mynd með grein:  Hafliði Breiðfjörð, Fótbolti.net.