• sun. 28. mar. 2021
  • Landslið
  • A karla

Armenskur sigur í Yerevan

Armenía hafði betur gegn Íslandi í undankeppni HM A landsliða karla í Yerevan í kvöld.  Heimamenn unnu tveggja marka sigur og eru með 6 stig að loknum tveimur umferðum. 

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik.  Íslendingar voru meira með boltann án þess að ná að skapa sér raunveruleg marktækifæri.  Armenar áttu fleiri marktilraunir, en allt voru það langskot sem ógnuðu ekki íslenska markinu. 

Íslenska liðið byrjaði seinni hálfleikinn af krafti en það voru heimamenn sem brutu ísinn með marki á 53. mínútu, skot fyrir utan teig sem fór í gegnum þvögu leikmanna og í stöngina fjær og inn.  Áfram sóttu okkar menn og Jón Daði Böðvarsson komst m.a. einn gegn markmanni Armena, sem varði með tilþrifum.  Armenska liðið beitti hættulegum skyndisóknum allan seinni hálfleikinn og það var úr einni slíkri sem annað mark þeirra kom á 74. mínútu.  Þrátt fyrir mikla baráttu íslenska liðsins tókst því ekki að skora mark og er liðið því án stiga eftir tvo leiki í riðlinum. 

Skoða riðilinn

Mynd:  Hafliði Breiðfjörð, Fótbolti.net