• mán. 29. mar. 2021
  • Landslið
  • A karla

Breytingar fyrir leikinn við Liechtenstein

Breytingar verða gerðar á leikmannahópi A landsliðs karla fyrir leikinn við Liechtenstein á miðvikudag. Arnar Þór Viðarsson, þjálfari liðsins, hefur kallað á fjóra leikmenn úr U21 árs hópnum sem nú leikur í úrslitakeppni EM í Ungverjalandi og hefur þegar leikið tvo leiki af þremur í sínum riðli.

Leikmennirnir sem um ræðir eru Jón Dagur Þorsteinsson, Willum Þór Willumsson, Ísak Bergmann Jóhannesson og Sveinn Aron Guðjohnsen og koma þeir til móts við A landsliðshópinn í kvöld, mánudagskvöld.

Albert Guðmundsson verður í leikbanni gegn Liechtenstein vegna tveggja gulra spjalda í fyrstu tveimur leikjum undankeppni HM, Ragnar Sigurðsson meiddist í upphitun fyrir leikinn við Armeníu og óvíst er með þátttöku Kolbeins Sigþórssonar, sem meiddist á handlegg gegn Armeníu.

Síðasti leikur U21 karla í EM-riðlinum fer fram á miðvikudag þegar liðið mætir Frökkum, sama dag og A karla leikur við Liechtenstein. Báðir leikir verða í beinni útsendingu á RÚV, en einnig má fylgjast með gangi leikjanna á samfélagsmiðlum KSÍ eða á vef UEFA.

Mynd með grein:  Hafliði Breiðfjörð, Fótbolti.net.