• fös. 30. apr. 2021
  • Landslið
  • A kvenna

Ísland í C riðli í undankeppni HM 2023

Ísland er í riðli með Hollandi, Tékklandi, Hvíta Rússlandi og Kýpur í undankeppni HM 2023.

Undankeppnin hefst í september á þessu ári og lýkur í september 2022, en umspilið verður svo leikið í október 2022.

Fyrri viðureignir

Ísland og Holland hafa mæst tíu sinnum. Ísland hefur unnið sex leiki, tveir hafa endað með jafntefli og Holland hefur unnið tvo.

Ísland og Tékkland hafa mæst fjórum sinnum. Tékkland hefur unnið tvo og tveir hafa endað með jafntefli.

Ísland og Hvíta Rússland hafa mæst fjórum sinnum og hefur Ísland unnið þá alla.

Ísland og Kýpur hafa aldrei mæst áður.

Undankeppninni er skipt í tvo hluta. Riðlakeppnin fer fram á einu ári, frá september 2021 til september 2022 og umspilið verður svo leikið í október 2022. Þau níu lið sem vinna sína riðla komast beint áfram í lokakeppnina. Liðin níu sem enda í öðru sæti síns riðils fara í umspil í október þar sem leikið verður um tvö laus sæti í lokakeppninni, ásamt einu sæti í sérstakri umspilskeppni þar sem þjóðir frá öllum heimsálfum taka þátt og keppa um þrjú laus sæti í lokakeppninni.

Umspilskeppnin

Leikið er um þrjú laus sæti í lokakeppninni og mun keppnin fara fram í Ástralíu og á Nýja Sjálandi. Tíu þjóðir taka þátt í keppninni og skiptast þau svona niður:

2 frá Asíu

2 frá Afríku

2 frá Suður Ameríku

2 frá Mið Ameríku

1 frá Eyjaálfu

1 frá Evrópu

Fjórar þjóðir verða í efri flokki og verða þær valdar út frá heimslista FIFA. Liðunum verður skipt niður í þrjá riðla og er eitt sæti í lokakeppninni í boði í þeim öllum. Lið frá sömu heimsálfu geta ekki dregist saman í riðil.

Riðill 1

Þrjú lið verða í riðlinum. Þjóðin sem er efst í efri flokknum mætir sigurvegara leiks hinna tveggja liðanna í riðlinum, en þau verða bæði í neðri flokki. Sigurvegari seinni leiksins tryggir sér sæti í lokakeppninni.

Riðill 2

Þrjú lið verða í riðlinum. Þjóðin sem er í öðru sæti í efri flokknum mætir sigurvegara leiks hinna tveggja liðanna í riðlinum, en þau verða bæði í neðri flokki. Sigurvegaeri seinni leiksins tryggir sér sæti í lokakeppninni.

Riðill 3

Fjögur lið verða í riðlinum. Þjóðirnar sem eru í þriðja og fjórða sæti í efri flokknum mæta tveimur þjóðum í neðri flokk. Sigurvegarar þeirra leikja mætast svo í úrslitaleik um laust sæti í lokakeppninni.