• þri. 08. jún. 2021
  • Landslið
  • A karla

Tvö mörk og flott frammistaða í Poznan

A landslið karla gerði 2-2 jafntefli við Pólland í vináttulandsleik í Poznan í kvöld, þriðjudagskvöld. Íslenska liðið lék vel í leiknum og var óheppið að ná ekki að landa sigri.

Pólverjarnir voru sterkari framan af en Albert Guðmundsson skoraði fyrsta mark leiksins á 25. mínútu eftir hornspyrnu Guðmundar Þórarinssonar.  Boltinn barst til Alberts sem afgreiddi hann í netið með laglegri hælspyrnu.  Markið var reyndar dæmt af vegna rangstöðu, en dómarateymið skoðaði atvikið með VAR-tækninni, sem staðfesti að um löglegt mark hefði verið að ræða.  Heimamenn náðu að jafna metin á 34. mínútu og það gerði Zielinski eftir skyndisókn og fyrirgjöf af vinstri kanti.  Staðan í hálfleik 1-1 og fínn fyrri hálfleikur hjá íslenska liðinu.

Frammistaðan í seinni hálfleik var virkilega góð lengst af og það var miðvörðurinn Brynjar Ingi Bjarnason sem gaf tóninn með frábæru marki eftir aðeins tvær mínútur.  Hann tók á móti fyrirgjöf Guðmundar Þórarinssonar, lagði knöttinn fyrir sig og hamraði honum í netið, óverjandi skot og Ísland komið í forystu.  Jafnræði var með liðunum og margir virkilega góðir kaflar hjá Íslenska liðinu en Pólverjar jöfnuðu metin að nýju með marki frá Swiderski, sem skoraði með skoti úr teignum.  Fleiri mörk voru ekki skoruð og 2-2 jafntefli niðurstaðan.

Frammistaða íslenska liðsins í leiknum var virkilega góð og ljóst að þessir þrír vináttuleikir - gegn Mexíkó, Færyejum og Póllandi - hafa verið þýðingarmiklir í þróun liðsins og undirbúningi fyrir undankeppnina sem heldur áfram í haust.