• lau. 15. jan. 2022
  • Landslið
  • A karla

Tap gegn Suður-Kóreu

A landslið karla tapaði 5-1 gegn feykisterku liði Suður-Kóreu í vináttuleik sem fram fór í Belek, Tyrklandi.  Eins og tölurnar gefa til kynna voru mótherjarnir mun sterkari aðilinn.

Lið Suður-Kóreu leiddi með þremur mörkum í hálfleik.  Fyrsta markið kom eftir stundarfjórðungsleik eftir flott samspil Kóreumanna.  Annað markið var sending inn fyrir vörnina sem var kláruð með góðu skoti og þriðja markið þrumufleygur efst í markhornið, óverjandi fyrir hinn unga markvörð Hákon Rafn Valdimarsson, sem hafði varið vítaspyrnu eftir fyrsta markið.

Íslenska liðið hóf seinni hálfleikinn af krafti, lék vel framan af og uppskar mark frá Sveini Aroni Guðjohnsen, sem fylgdi eftir eigin skoti í teignum og skoraði í annarri tilraun.  Aftur tók Suður-Kórea völdin og bætti við tveimur mörkum áður en yfir lauk, á 73. og 85. minútu.  5-1 tap íslenska liðsins því staðreynd í þessum seinni vináttuleik í janúar, en áður hafði liðið gert 1-1 jafntefli við Úganda.  

Fjölmargir leikmenn stigu sín fyrstu skref í A-landsliði þessu verkefni.