• mán. 11. apr. 2022
  • Landslið
  • A kvenna

A kvenna - Ísland mætir Tékklandi á þriðjudag

A landslið kvenna mætir Tékklandi á þriðjudag í undankeppni HM 2023.

Leikurinn hefst kl. 15:30 að íslenskum tíma og fer hann fram á AGC Arena í Teplice, Tékklandi. Bein útsending verður frá leiknum á RÚV. Ísland vann 5-0 sigur gegn Hvíta Rússlandi á fimmtudag, en leikið var í Serbíu.

Ísland er í öðru sæti riðilsins með 12 stig eftir fimm leiki á meðan Tékkland er í þriðja sæti með fimm stig eftir fjóra leiki. Holland er í efsta sæti með 14 stig, en hafa leikið einum leik fleiri en Ísland og getur Ísland því komist á topp riðilsins með sigri. Fyrri leikurinn liðanna endaði með 4-0 sigri á Laugardalsvelli í október.

Liðin hafa mæst sex sinnum og er jafnræði með liðunum í þeim viðureignum. Ísland hefur unnið tvær, Tékkar tvær og tvær hafa endað með jafntefli. Ísland hefur skorað 10 mörk á meðan Tékkar hafa skorað átta.