• mið. 04. maí 2022
  • Fræðsla
  • Barnaheill

KSÍ og Barnaheill í samstarf

KSÍ og Barnaheill – Save the Children á Íslandi munu á þessu ári hefja tveggja ára samstarf um fræðsluverkefnið Verndarar barna með það að markmiði að fyrirbyggja kynferðislegt ofbeldi gegn börnum, þekkja einkenni ofbeldis og læra að bregðast við. Samkvæmt nýlegri íslenskri rannsókn verður eitt af hverjum fimm börnum á Íslandi fyrir líkamlegu og/eða kynferðislegu ofbeldi fyrir 18 ára aldur.

Frá og með næsta hausti fer sérfræðingur frá Barnaheillum í heimsókn til knattspyrnufélaga um allt land. Bundnar eru miklar vonir við þátttöku félaganna og er markmið KSÍ og Barnaheilla að í lok samstarfsins hafi öll aðildarfélög KSÍ fengið heimsókn og fræðslu. Unnið er að útfærslu og skipulagi verkefnisins og á næstu vikum mun KSÍ senda nánari upplýsingar á öll aðildarfélög. Heimsóknin og fræðslan er aðildarfélögum KSÍ að kostnaðarlausu.

Eins og fram kemur í stefnu KSÍ um samfélagsleg verkefni lítur Knattspyrnusamband Íslands á það sem skyldu sína að nýta þann kraft sem býr í knattspyrnufjölskyldunni til að vera virkur þátttakandi í samfélagslegum verkefnum sem gera raunverulegt og áþreifanlegt gagn.

Á vef Barnaheilla, má sjá nánari upplýsingar um starfsemi þeirra þar sem einnig er hægt að styrkja samtökin.

Stefna KSÍ um samfélagsleg verkefni - https://www.ksi.is/um-ksi/ymsar-upplysingar/samfelagsleg-verkefni/
Vefur Barnaheilla - https://www.barnaheill.is/