• fös. 27. okt. 2023
  • Landslið
  • A kvenna

Danskur sigur í Dalnum

A landslið kvenna mætti Danmörku í Þjóðadeild UEFA í kvöld, föstudagskvöld, og lauk leiknum með eins marks sigri Dana.  Leikurinn var jafn og íslenska liðið, sem lék vel, átti í fullu tré við hið gríðarsterka danska lið. 

Markalaust var í hálfleik þó bæði lið hafi fengið ágætis færi til að skora.  Liðin skiptust áfram á að sækja í seinni hálfleik, en eina markið kom á 71. mínútu þegar Amalie Vangsgaard framherji danska liðsins skoraði með góðu skoti úr teignum eftir fyrirgjöf, og reyndist það sigurmark leiksins.

Fyrr í dag mættust Þýskaland og Wales á Rhein-Neckar-Arena í Sinsheim þar sem þær þýsku unnu 5-1 sigur.  Staðan í riðlinum er því þannig að Danmörk er í efsta sætinu með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir, Þjóðverjar í 2. sæti með sex stig, þá koma Íslendingar með þrjú stig og Wales er í fjórða og neðsta sæti án stiga. 

Næsta umferð er leikin þriðjudaginn 31. október, en þá mætast annars vegar Danmörk og Wales í Viborg, en hins vegar Ísland og Þýskaland á Laugardalsvelli.  Leikur Íslands hefst kl. 19:00 (beint á RÚV).  Miðasala er í fullum gangi á Tix.is.  

A landslið kvenna

Mynd:  Hulda Margrét.