• fös. 19. jan. 2024
  • Landslið
  • A karla

Samningur Åge Hareide framlengdur

KSÍ hefur samið við Norðmanninn Åge Hareide um framlengingu á samningi hans sem þjálfari A landsliðs karla. Samningurinn gildir út árið 2025 og í honum eru bæði uppsagnarákvæði og framlengingarákvæði. Uppsagnarákvæði er við lok Þjóðadeildarinnar 2024. Samningurinn framlengist sjálfkrafa ef Ísland er í umspili um sæti í lokakeppni HM 2026 og framlengist einnig sjálfkrafa ef Ísland kemst í lokakeppni HM 2026.

Hareide tók við þjálfun A landsliðs karla í apríl á síðasta ári og stýrði liðinu í átta leikjum í undankeppni EM það ár og í tveimur vináttuleikjum í janúar á þessu ári. Framundan eru umspilsleikir í mars um sæti í lokakeppni EM 2024 þar sem Ísland mætir Ísrael, og sigurvegarinn úr þeirri viðureign mætir annað hvort Bosníu-Hersegóvínu eða Úkraínu.

Åge Hareide, þjálfari A landsliðs karla:

"Ég hef virkilega notið þess að þjálfa Ísland þetta tæpa ár sem ég hef verið með liðið og ég hlakka til komandi verkefna. Þó liðið sé í ákveðnum uppbyggingarfasa þá er líka mikilvægt að ná úrslitum, og akkúrat núna er öll okkar áhersla og allur okkar fókus á umspilsleikinn við Ísrael í mars. Við ætlum okkur á EM í Þýskalandi. Ég hef mikla trú á liðinu og leikmönnunum, þetta er hæfileikaríkur og metnaðarfullur hópur, starfsfólk og umgjörð liðsins er fyrsta flokks, og við getum náð árangri með samstöðu og góðu skipulagi."

Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ:

"Við erum mjög ánægð með að hafa framlengt samninginn við Åge Hareide og höfum mikla trú á honum og hans starfi. Það er verðugt verkefni fyrir hvaða þjálfara sem er að sameina það tvennt að halda áfram uppbyggingu nýs liðs og á sama tíma að ná árangri á vellinum, og við erum sannfærð um að Åge sé rétti þjálfarinn í það verkefni, með alla sína reynslu og þekkingu á landsliðsfótbolta."

A landslið karla