• fös. 23. feb. 2024
  • Landslið
  • A kvenna

Jafntefli í Serbíu

A landslið kvenna gerði 1-1 jafntefli við Serbíu í fyrri leik liðanna í umspili Þjóðadeildar UEFA.

Serbía tók forystuna eftir 19 mínútur, en það tók íslenska liðið aðeins fimm mínútur að jafna leikinn. Glódís Perla Viggósdóttir skallaði boltann í átt að marki og Alexandra Jóhannsdóttir kom boltanum yfir línuna. Staðan því orðin 1-1. Leikurinn var nokkuð jafn það sem eftir lifði fyrri hálfleiks, en ekki voru fleiri mörk skoruð áður en dómari leiksins flautaði til hálfleiks.

Síðari hálfleikurinn var svipaður þeim fyrri. Bæði lið áttu sína spretti, en þó án þess að skapa sér mjög góð færi. Íslenska liðið fékk í lokin ágætist möguleika á því að krækja í sigur eftir að leikmaður Serbíu var rekinn útaf eftir að hafa fengið tvö gul spjöld. Liðinu tókst hins vegar ekki að skora og 1-1 jafntefli því staðreynd.

Seinni leikur viðureignarinnar fer fram á Kópavogsvelli á þriðjudag og hefst hann kl. 14:30. Miðasala á leikinn er á tix.is og við hvetjum fólk til að fjölmenna á hann og styðja stelpurnar til sigurs í þessum mikilvæga leik!