• fös. 07. jún. 2024
  • Landslið
  • A karla

Glæsilegur sigur á Wembley!

Ísland vann frábæran eins marks sigur gegn Englandi á Wembley í kvöld, föstudagskvöld.

Jón Dagur Þorsteinsson skoraði eina mark leiksins á 12. mínútu með hnitmiðuðu skoti eftir flotta skyndisókn íslenska liðsins. Liðið varðist vel allan leikinn og skapaði sér nokkur úrvals færi, þó Englendingar hefðu átt ágætis færi inn á milli.

Ísland kom sterkt inn í seinni hálfleikinn og fékk nokkur færi til að bæta við marki, en ekki tókst það. England setti þónokkrar pressu á islensku vörnina undir lok leiks, en þó án þess að ná að ógna íslenska markinu að ráði. Því var frækinn eins marks sigur staðreynd á þjóðarleikvangi Englendinga, en þetta var síðasti leikur enska liðsins fyrir lokakeppni EM sem hefst 14. júní.

Ísland ferðast nú yfir til Hollands þar sem það mætir heimamönnum á De Kuip í Rotterdam á mánudag. Sá leikur hefst kl. 18:45 og verður í beinni útsendingu, og í opinni dagskrá, á Stöð 2 Sport.