Fyrsti miðasöluglugginn fyrir EM 2025 opnar 1. október
Eins og knattspyrnuáhugafólki er vel kunnugt um fer úrslitakeppni EM A landsliða kvenna 2025 fram í Sviss. Ísland verður þar á meðal þátttökuþjóða og er það í fimmta sinn í röð sem kvennalandslið Íslands kemst í lokakeppni EM.
Þann 1. október opnar fyrsti miðasöluglugginn fyrir mótið og sem fyrr fer öll sala aðgöngumiða að leikjum keppninnar í gegnum miðasöluvef UEFA. Í þessum fyrsta glugga er hægt að kaupa miða á alla leiki keppninnar (31 leikur, "fyrstir koma - fyrstir fá" fyrirkomulag), en á þessum tímapunkti veit kaupandinn auðvitað ekki hvaða leiki er um að ræða, þar sem dregið verður í riðla fyrir lokamótið þann 16. desember. Sérstök sala til stuðningsmanna liðanna (þar á meðal Íslands) verður þannig kynnt síðar.